A kvartaði yfir álagningu holræsagjalds á húseign hans í Ísafjarðarbæ á árinu 1998. Laut kvörtunin einkum að því að A væri gert að greiða lágmarksgjald skv. reglugerð nr. 39/1997, um holræsagjald í Ísafjarðarbæ, með síðari breytingum, en hann taldi heimild Ísafjarðarbæjar skv. reglugerðinni til að ákvarða lágmark og hámark holræsagjaldsins skorta lagastoð.
Í áliti sínu gerði umboðsmaður grein fyrir lagaheimild sveitarfélaga til töku holræsagjalda í 1. mgr. 87. gr. vatnalaga nr. 15/1923 og taldi ljóst að tilgangur löggjafans með ákvæðinu hefði verið að heimila töku þjónustugjalds en ekki að kveða á um skattheimtu. Umboðsmaður benti jafnframt á að umrætt gjald væri óháð þeirri þjónustu sem einstakir greiðendur nytu í hverju tilfelli og því yrði að gera þá kröfu að fram kæmi í lögum við hvaða gjaldstofn skyldi miðað. Væri krefjandi gjaldsins þá bundinn við þann gjaldstofn sem lög mæltu fyrir um og yrði ekki vikið frá honum með ákvæðum í reglugerð. Samkvæmt þessu taldi umboðsmaður að við álagningu holræsagjalds væri sveitarfélagi óheimilt að miða við aðra gjaldstofna en tilgreindir væru í 1. mgr. 87. gr. vatnalaga, þ.e. virðingarverð fasteignar, stærð lóðar eða hvorttveggja. Jafnframt taldi umboðsmaður ljóst að með því að heimila bæjarstjórn að mæla fyrir um hámark og lágmark holræsagjalds væri vikið frá lögbundinni viðmiðun ákvæðisins um stofn gjaldtöku. Lagði umboðsmaður áherslu á að því fyrirkomulagi laganna að lögmæla gjaldstofna með þeim hætti sem gert væri í 1. mgr. 87. gr. vatnalaga væri ætlað að tryggja ákveðið jafnræði milli gjaldenda sem virða bæri við útfærslu gjaldaheimildarinnar í reglugerð. Var niðurstaða umboðsmanns samkvæmt framangreindu sú að ákvæði um hámark og lágmark holræsagjalds í reglugerð nr. 39/1997 skorti lagastoð og væri í ósamræmi við lög.
Umboðsmaður vék jafnframt að heimild Ísafjarðarbæjar skv. reglugerð nr. 39/1997 til að hækka holræsagjald um allt að 50% án samþykkis félagsmálaráðuneytisins. Benti umboðsmaður í því sambandi á að skv. 90. gr. vatnalaga bæri að senda ráðherra til staðfestingar reglugerðir sveitarfélags um holræsi og holræsagjald. Með því væri ráðherra falið eftirlit með þessari gjaldtöku sveitarfélaga. Komst umboðsmaður að þeirri niðurstöðu að heimild Ísafjarðarbæjar til hækkunar holræsagjalds um allt að 50% fengi ekki samrýmst skyldu ráðuneytisins til eftirlits með gjaldtökunni. Væri því um að ræða annmarka á reglugerð nr. 39/1997 og bæri nauðsyn til að hún yrði tekin til endurskoðunar að þessu leyti.
Um ákvörðun fjárhæðar holræsagjalds tók umboðsmaður fram í áliti sínu að þar sem gjaldið væri lögum samkvæmt óháð þeirri þjónustu sem einstakir greiðendur nytu í hverju tilfelli yrði ekki gerð krafa um að fyrir lægi útreikningur holræsakostnaðar vegna einstakra húseigna eða flokka húseigna í sveitarfélagi við ákvörðun á fjárhæð holræsagjaldsins. Þar sem umrætt gjald væri lagt á til að standa straum af holræsakostnaði sveitarfélags væri á hinn bóginn nauðsynlegt að fyrir lægi við álagningu þess hver sá kostnaður hefði verið. Af svörum félagsmálaráðuneytisins við fyrirspurnum umboðsmanns vegna kvörtunar A taldi umboðsmaður ekki unnt að draga aðra ályktun en þá að þess hefði ekki verið nægilega gætt af hálfu félagsmálaráðuneytisins við staðfestingu ráðuneytisins á reglugerð nr. 39/1997 að fyrir lægju greinargóðar upplýsingar eða gögn um kostnað Ísafjarðarbæjar af holræsagerð. Þar sem ekki höfðu komið fram upplýsingar um raunverulegan kostnað bæjarins af holræsum á árinu 1997 taldi umboðsmaður að ekki yrði fullyrt hvort álögð holræsagjöld í sveitarfélaginu vegna þess árs hefðu verið ákvörðuð of há með tilliti til holræsakostnaðar bæjarins.
Vegna kvörtunar A um að honum hefði ekki verið gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum sínum við umsögn Ísafjarðarbæjar um erindi hans til félagsmálaráðuneytisins áður en ráðuneytið úrskurðaði í máli hans, gat umboðsmaður þess að af ákvæðum 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 leiddi að félagsmálaráðuneytinu væri ekki skylt að eiga frumkvæði að því að aðili tjáði sig um slíka umsögn sveitarfélags við meðferð máls nema hún hefði að geyma nýjar upplýsingar sem honum væru í óhag. Engu að síður hefði það verið í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti að gefa A kost á að tjá sig um efni umsagnar Ísafjarðarbæjar.
Sjá tengt mál nr. 2584/1998.