18. maí 2020

OPCAT-úttekt á neyðarvistun Stuðla – Skýra þarf lagaheimild til þvingana

Þótt börn séu neyðarvistuð á grundvelli barnaverndarlaga og ákveðnar heimildir séu til að skerða réttindi þeirra við tilteknar aðstæður með þvingun eða öðrum inngripum, þá eru þær heimildir ekki nægilega skýrar að lögum. Auk þess hefur ráðherra ekki útfært þær heimildir í reglugerð eins og mælt er fyrir um í lögum. Gæta þarf að því lagastoð sé fyrir slíkum inngripum og framkvæmd í samræmi við stjórnarskrá, önnur lög og mannréttindasjónarmið.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu umboðsmanns um neyðarvistun Stuðla. Í henni segir einnig að ekki verði annað séð en að börn sem þar eru vistuð njóti almennt nokkuð góðs aðbúnaðar. Þá hafi ekkert komið í ljós sem gefi tilefni til að ætla að börn hafi verið beitt ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð á neyðarvistuninni. Í þessum efnum eru þó settar fram ábendingar og tilmæli um tiltekin atriði.

Í skýrslunni beinir umboðsmaður þeim tilmælum til félags- og barnamálaráðherra að taka lög og reglur sem gilda á þessu sviði til athugunar með hliðsjón af því sem bent er á í skýrslunni. Meðal annars að gerðar verði tillögur að um breytingar á lögum til að tryggja betur réttarstöðu þeirra barna sem svipt hafa verið frelsi og vistuð á heimilum eða stofnunum á vegum ríkisins. Þá er því beint til Barnaverndarstofu og Stuðla að skilgreina með skýrum hætti þær athafnir og ákvarðanir sem sem teljist fela í sér þvinganir og inngrip í friðhelgi einkalífs barns.

Í skýrslunni er m.a. bent á að grundvöllur til neyðarvistunar á Stuðlum liggi ekki alltaf fyrir með skýrum hætti því það heyri til undantekninga að umsóknir um vistun barns séu skriflegar eða að þeim fylgi formleg ákvörðun barnaverndarnefndar eða samþykki foreldris og barns. Því er beint til Barnaverndarstofu og Stuðla að taka þetta skipulag og framkvæmd til endurskoðunar og gera viðeigandi breytingar. Jafnframt þurfi að bæta upplýsingagjöf til barna, forsjáraðila og starfsmanna neyðarvistunarinnar hvað þetta og fleira snerti.

Umboðsmaður mun fylgjast áfram með þróun þessara mála en óskar eftir því að Stuðlar, Barnaverndarstofa og önnur stjórnvöld geri grein fyrir viðbrögðum sínum í tilefni af þeim ábendingum og tilmælum sem fram koma í skýrslunni fyrir 1. desember 2020.

  


  

Skýrsla um starfsemi neyðarvistunar Stuðla er gerð í kjölfar eftirlitsheimsóknar umboðsmanns þangað  á grundvelli OPCAT-eftirlits hans. Í því felst að heimsækja staði þar sem einstaklingar eru eða kunna að vera sviptir frelsi sínu og taka út aðbúnað þeirra og starfsemi á staðnum. Þetta er önnur skýrsla umboðsmanns á grundvelli OPCAT-eftirlitsins. Í þeirri fyrstu var fjallað um starfsemi þriggja lokaðra deilda á Kleppi.

 

Skýrsla umboðsmanns um OPCAT-eftirlit á neyðarvistun Stuðla

Skýrsla umboðsmanns um OPCAT-eftirlit á Landspítala Kleppi