06. maí 2021

Spurt um útivist í sóttvarnahúsum

Umboðsmaður Alþingis hefur óskað eftir upplýsingum frá heilbrigðisráðherra um aðbúnað og útivist þeirra sem dvelja í sóttvarnahúsum. Meðal annars hvernig útivera sé tryggð og þá sérstaklega fyrir börn.

Í byrjun apríl óskaði settur umboðsmaður eftir upplýsingum í tengslum við aðgerðir stjórnvalda og reglur á landamærum um sýnatöku og sóttkví. Þar sem lögum og reglum um dvöl í sóttvarnahúsum hefur nú verið breytt taldi settur umboðsmaður tilefni til að óska eftir nánar skýringum með bréfi 30. apríl sl. á aðbúnaði þeirra sem þar dvelja, einkum um möguleika á útvist.

Í skýringum ráðuneytisins til umboðsmanns kom fram að útivera í sóttvarnahúsum yrði í boði þar sem unnt væri vegna sóttvarnaráðstafana. Það væri háð annarri umferð um hótelið og öðrum aðstæðum sem gætu sett ráðstafanirnar í uppnám. Börn fengju forgang ef til forgangsröðunar kæmi.

Í nýrri fyrirspurn benti settur umboðsmaður á að ganga verði út frá því að einstaklingar sem dvelja í sóttvarnahúsi geti verið frelsissviptir í samræmi við skilgreiningu OPCAT-eftirlitsins sem umboðsmaður hefur með höndum (OPCAT er valfrjáls bókun við samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu). Það felst meðal annars í eftirliti með aðbúnaði á þeim stöðum þar sem frelsissviptir einstaklingar dvelja og þá hvort sá aðbúnaður sé í samræmi við lög og reglur um mannúð og mannvirðingu. Óskaði hann sérstaklega eftir upplýsingum um hvort og þá hvernig horft hafi verið til aðbúnaðar og möguleika á útvist við val á þeim sóttvarnahúsum sem nú eru í notkun. Þá var beðið um nánari skýringar á því hvort og þá með hvaða hætti hugað væri að aðstöðu einstaklinga sem dvelja í sóttvarnahúsum og með hvaða hætti útivera væri tryggð, sérstaklega fyrir börn. Jafnframt hvaða atriði eða atvik kunni að koma í veg fyrir að hægt sé að tryggja útivist. Óskað var eftir svörum eigi síðar en 21. maí nk.

   

   

Bréf setts umboðsmanns til heilbrigðisráðherra