OPCAT-eftirlit í fangelsum á erlendri grundu var efst á baugi á samnorrænum fundi starfsfólks umboðsmanna þjóðþinga Norðurlandanna í síðustu viku.
Norðmenn sem ráku fangelsi í Hollandi frá 2015-2018 fyrir bæði norska og erlenda fanga deildu reynslu sinni af framkvæmd OPCAT-eftirlits í öðru landi. Sögðu þeir fyrirkomulagið hafa falið í sér ýmsar áskoranir fyrir eftirlitið m.a. vegna lagalegra álitaefna í tengslum við lögsögu ríkjanna, tungumálahindrana og ólíkrar starfsmannamenningar. Á næsta ári hyggjast Danir svo opna fangelsi í Kósovó fyrir erlenda fanga sem verður vísað brott frá Danmörku að lokinni afplánun.
Fundurinn var haldinn í Kaupmannahöfn og voru þátttakendur þrettán frá Norðurlöndunum fimm. Þetta var fyrsti fundurinn augliti til auglitis eftir kórónuveirufaraldurinn en í ljósi aðstæðna hafa fundirnir verið rafrænir undanfarin misseri. Að jafnaði er fundað tvisvar á ári og mun umboðsmaður sænska þjóðþingsins hafa umsjón með næsta fundi eftir atvikum í Stokkhólmi eða rafrænt.