23. desember 2022

Breytingar á yfirstjórn og nýtt starfsfólk hjá umboðsmanni

Reyndir starfsmenn hafa tekið við þremur stjórnunarstöðum hjá umboðsmanni.

Særún María Gunnarsdóttir er nú aðalskrifstofustjóri umboðsmanns en hún var áður skrifstofustjóri kvartana. Við þeirri stöðu tók Anna Rut Kristjánsdóttir sem var starfandi skrifstofustjóri á sviði frumkvæðismála og OPCAT (eftirlit með aðbúnaði frelsissvipts fólks). Kolbrún Bjarnadóttir hefur tekið við starfi rekstrarstjóra og um áramót kemur Vilhelmína Ósk Ólafsdóttir til baka úr leyfi og fer í sína fyrri stöðu sem skrifstofustjóri frumkvæðismála og OPCAT.

Þá bættust tveir starfsmenn nýverið í hópinn. Auður Tinna Aðalbjarnardóttir kom til umboðsmanns frá Rétti þar sem hún starfaði sem lögmaður. Þá hefur Nína Hjördís Þorkelsdóttir verið ráðin tímabundið til starfa við OPCAT-eftirlit embættisins. Hún útskrifaðist með MPhil-gráðu í lögum og félagsvísindum (socio-legal research) frá Oxford-háskóla árið 2021 og hafði áður lokið grunnnámi í lögfræði og mannfræði við Háskóla Íslands auk annars.