Bæta þarf skráningu um vistun gæsluvarðhaldsfanga í fangageymslum lögreglunnar á Akureyri. Þar sem aðbúnaður í þeim er ekki hentugur til slíkrar vistunar verður að gæta þess að gæsluvarðhaldsfangi nyrðra sé fluttur án tafar í fangelsi. Einnig þarf að skoða hvort aðbúnaður þar teljist viðhlítandi fyrir ungmenni undir 18 ára aldri og þá með tilliti til þeirra sérsjónarmiða sem gilda um vistun barna.
Þetta er á meðal ábendinga í nýrri OPCAT-skýrslu umboðsmanns þar sem sjónum var beint að vistun fólks í fangageymslunum, aðbúnaði þar og almennu verklagi og starfsháttum lögreglu í tengslum við vistunina. Þar segir m.a. að aðbúnaður í fangageymslunni á Akureyri sé almennt fullnægjandi þegar vistun vari ekki umfram sólarhring. Þó þurfi m.a. að huga að því að fólk geti vitað hvað tímanum líður, lýsingu í klefum, staðsetningu bjöllu og hreinlætisaðstöðu.
Dæmi eru um að fangar, sem úrskurðaðir hafa verið í gæsluvarðhald, hafi verið vistaðir í allt að þrjá daga á lögreglustöðinni. Tekið er fram að þótt lög heimili vistun gæsluvarðhaldsfanga til skamms tíma í fangageymslum lögreglu verði aðbúnaður að vera viðunandi. Svo er ekki í fangageymslum á Akureyri. Fangar komast ekki undir bert loft og sæta að mestu leyti einangrun meðan þeir dvelja þar. Því þarf bæði að bæta og skýra verklag um vistanir gæsluvarðhaldsfanga svo og að menn séu fluttir án tafar í viðeigandi fangelsi.
Umboðsmanni bárust ekki nákvæmar upplýsingar frá lögreglu framan af um vistanir gæsluvarðhaldsfanga. Í skýrslunni áréttar því umboðsmaður að upplýsingagjöf stjórnvalda sé forsenda þess að hann geti rækt það eftirlitshlutverk sem honum er ætlað lögum samkvæmt. Í því sambandi er bent á að viðhlítandi skráning í tengslum við frelsissviptingu manna sé mikilvægur þáttur í að varpa ljósi á aðbúnað þeirra og hvort þeir hafi haft aðgang að þeim grunnréttindum sem þeim skulu tryggð meðan á vistun stendur. Þar sem merkja megi óvissu stjórnvalda um hverjum sé falin ábyrgð á vistun gæsluvarðhaldsfanga í fangageymslum lögreglu og skráningu þar að lútandi er því beint til dómsmálaráðherra að skýra hvar sú ábyrgð liggur.
Þá mælist umboðsmaður til þess að metið sé hverju sinni hvort nauðsynlegt sé að hafa ávallt stöðuga myndvöktun í klefum. Slíkt fyrirkomulag veki upp spurningar í tengslum við rétt manna til friðhelgi einkalífs og hvort skilyrðið um nauðsyn inngripa í þann rétt sé í öllum tilvikum uppfyllt. Jafnframt verði að tryggja að fólk viti af vöktuninni.
Á árstímabili sem umboðsmaður skoðaði fyrir heimsóknina voru sex ungmenni yngri en 18 ára vistuð í fangageymslunum. Því er beint til lögreglustjórans að verklag taki mið af sérstökum sjónarmiðum sem eigi við um vistun barna og ungmenna, m.a. við val á klefa. Samhliða var bent á að skoða þurfi hvort aðbúnaður á stöðinni teljist viðunandi með tilliti til sérsjónarmiða sem gilda um vistun barna.
Bent er á að vegna fjölda starfandi afleysingamanna hjá embætti lögreglustjórans sé nauðsynlegt að endurskoða og eftir atvikum auka þjálfun og fræðslu. Tryggja þurfi einnig að fólk sé upplýst um rétt sinn til læknisþjónustu og að einstaklingsbundið mat fari fram á viðveru lögreglu í læknaviðtölum.
Líkt og umboðsmaður hefur ítrekað bent á gætir ákveðins úrræðaleysis í þeim tilvikum sem lögregla þarf að hafa afskipti af einstaklingum sem glíma við geðræn vandamál, stundum tengd vímuefnaneyslu, og þurfa mögulega á heilbrigðisþjónustu eða annars konar þjónustu að halda. Minnt er á umfjöllun í síðustu ársskýrslu um þörf á meiri samvinnu refsivörslu-, fullnustu- og heilbrigðiskerfisins í þessum efnum. Er þeim tilmælum beint til lögreglunnar að efla samstarf við geðdeild Sjúkrahússins á Akureyri auk annars hvað þetta snertir.
Skýrsla umboðsmanns um heimsókn í fangageymslur hjá lögreglustjóranum á Norðurlandi eystra