Leiðir til að koma í veg fyrir ofbeldi á geðdeildum, hvernig fylgja á eftir ábendingum og tilmælum til stjórnvalda og umræða um eftirlit með börnum og ungu fólki í fangelsum voru helstu umfjöllunarefni samnorræns OPCAT fundar sem fram fór í Stokkhólmi í síðustu viku.
Sænskir læknar fjölluðu um vinnulag á geðdeildum og fóru yfir leiðir til að fyrirbyggja ofbeldi þar. Fulltrúar allra landanna kynntu hugmyndir sínar um hvernig best væri að fylgja eftir ábendingum og tilmælum til stjórnvalda til að ná sem bestum árangri við að fá þeim framfylgt. Þá var rætt um hvernig eftirliti með börnum og ungu fólki í fangelsum væri háttað og hvaða leiðir væru vænlegastar til árangurs.
Alls tóku um 20 manns frá Norðurlöndunum fimm þátt í fundinum, þar af tæplega helmingur frá sænsku gestgjöfunum. Hópurinn hittist að jafnaði einu sinni á ári og ber saman bækur sínar en þess á milli eru rafrænir fundir ef tilefni er til. Næsti fundur verður í Helsinki.