Heilbrigðismál. Eftirlit landlæknis. Málshraði. Tafir á málsmeðferð. Ábyrgð forstöðumanna undirstofnana. Yfirstjórnunar- og eftirlitsheimildir ráðherra. Frumkvæðisathugun.

(Mál nr. F124/2022)

Umboðsmaður Alþingis hefur lokið frumkvæðisathugun viðvíkjandi viðbrögðum heilbrigðisráðuneytisins við töfum á málsmeðferð kvörtunar­mála hjá embætti landlæknis. Tildrög athugunarinnar var erindi sem barst umboðsmanni Alþingis í ágúst 2022. Hafði viðkomandi sent kvörtun til landlæknis á grundvelli 12. gr. laga nr. 41/2007, um landlækni og lýðheilsu, í febrúar 2021 sem enn hafði ekki verið afgreidd af hálfu embættisins. Við athugun málsins kom í ljós að tafir á meðferð kvartana hjá embættinu voru almennar. Af hálfu landlæknis voru tafirnar einkum sagðar orsakast af auknum málafjölda og skorti á fullnægjandi fjárheimildum. Landlæknir hefði á liðnum árum ítrekað vakið athygli heilbrigðisráðherra á þessum almenna vanda. Þá hefði embættið gripið til ýmissa hagræðingar­ráðstafana á undanförnum árum til að mæta vandanum sem ekki virtust þó duga til.  Beindist athugun umboðsmanns einkum að því hvort heilbrigðisráðuneytið hefði brugðist með fullnægjandi hætti við þeirri stöðu sem uppi hefur verið að þessu leyti hjá embættinu á grundvelli yfirstjórnunar- og eftirlitsheimilda sinna.

Umboðsmaður rakti almenn sjónarmið um málshraða í stjórnsýslunni og ábyrgð landlæknis sem forstöðumanns embættisins. Sjónum var þó einkum beint að því að ráðherrar, sem séu í reynd æðstu hand­hafar framkvæmdarvaldsins, hver á sínu sviði, beri ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum eftir því sem nánar sé mælt fyrir um í lögum og hafi  jafnan bæði yfirstjórnunar- og eftirlitsheimildir gagnvart undirmönnum sínum í ráðuneytinu og undirstofnunum. Væri heilbrigðisráðherra kunnugt um kerfislægan vanda í starfsemi embættis landlæknis yrði þannig að leggja til grundvallar að á honum hvíldi almenn skylda til að gera viðeigandi ráðstafanir til úrbóta enda hefðu ráðstafanir forstöðumanns ekki náð tilætluðum árangri. Þannig færi ekki á milli mála að ráðuneyti heilbrigðismála bæri almenn skylda til að tryggja að gætt væri skráðra og óskráðra reglna stjórnsýsluréttarins við stjórnsýslu þeirra stofnana sem undir það heyra, m.a. þannig að úrlausn þeirra mála sem þær hefðu til meðferðar væri í skilvirkum farvegi í samræmi við lög. Yrði þá að miða við að afskipti og inngrip ráðuneytisins á grundvelli yfirstjórnunar- og eftirlitsheimilda þess væri með þeim hætti að brugðist væri við þeim vanda sem uppi væri með markvissum og raunhæfum hætti. Þessi viðbrögð gætu t.a.m. falist í að gera ráðstafanir til þess að nauðsynleg þekking og nægt starfsfólk væri tiltækt hjá undirstofnun svo henni væri unnt að sinna lögbundnum verkefnum sínum með viðhlítandi hætti, m.a. m.t.t. málshraða. Einnig ítrekaði hann þær rúmu heimildir til yfirstjórnunar og eftirlits sem ráðuneyti nýtur gagnvart undirstofnun sinni við þessar aðstæður, t.d. að því er lýtur að innra skipulagi, forgangsröðun og verkferlum. Gæti ráðuneytið á slíkum grundvelli m.a. lagt mat á hvort tiltækum mannauði og fjárheimildum sé ráðstafað með haganlegustum hætti m.t.t. verkefna undirstofnana.

Umboðsmaður gerði athugasemdir við að þær ráðgerðu lausnir á þessum vanda sem boðaðar hefðu verið af hálfu ráðuneytisins undanfarin ár hefðu að meginstefnu snúist um að tiltekin frumvörp til laga næðu fram að ganga Yrði þannig ekki ráðið af svörum ráðuneytisins að komið hefðu til álita aðrar aðgerðir sem gætu talist raunhæfar eða áhrifaríkar til lausnar vandans. Þótt tilteknar breytingar hafi verið gerðar á lögum nr. 41/2007, sem taki gildi 1. september nk., með það m.a. að markmiði að bregðast við umræddum vanda landlæknis, var það álit umboðsmanns að skort hefði á nægilega raunhæfar og markvissar aðgerðir af hálfu ráðuneytisins til lausnar á viðvarandi vanda embættisins viðvíkjandi óhæfilega löngum málsmeðferðartíma við afgreiðslu kvartana á grundvelli 12. gr. laga nr. 41/2007. Það voru því tilmæli umboðsmanns til ráðuneytisins að gripið yrði án tafar til raunhæfra og markvissra aðgerða í því skyni að fækka þeim málum sem nú þegar bíða afgreiðslu hjá landlækni.

   

Umboðsmaður lauk málinu með áliti 6. maí 2024.