A kvartaði yfir ráðningu í starf hjá Fjarskiptastofu. Kvörtunin laut annars vegar að mati og samanburði á umsækjendum og hins vegar að synjun Fjarskiptastofu á beiðni A um afrit af tilteknum gögnum ráðningarmálsins. Umboðsmaður ákvað að afmarka umfjöllun sína við þá ákvörðun Fjarskiptastofu að synja gagnabeiðni A að hluta. Einnig fjallaði hún um hvort Fjarskiptastofu hefði verið heimilt að taka við umsóknum sem bárust að liðnum umsóknarfresti.
Aðgangur A að þeim gögnum málsins sem vörðuðu umsækjandann sem hlaut starfið var takmarkaður við það sem Fjarskiptastofa nefndi „almennar upplýsingar“. Hann fékk ekki afhent skjöl sem innihéldu svör umsækjandans við spurningum sem voru lagðar fyrir hana í starfsviðtölum ásamt stigagjöf fyrir þau. Umboðsmaður taldi ekki liggja fyrir að Fjarskiptastofa hefði lagt fullnægjandi mat á hvort afhenda ætti afrit af umræddum skjölum. Hún taldi því að ákvörðun um afhendingu gagnanna hefði, að þessu leyti, ekki byggst á réttum lagagrundvelli. Því taldi hún ekki tilefni til að fjalla frekar um hvort A ætti rétt á að fá allar upplýsingar sem kæmu fram í umræddum gögnum en benti þó á að spurningarnar og svör við þeim vörðuðu ekki persónuleg málefni umsækjandans heldur mat á starfshæfni hennar með tilliti til hlutlægra og huglægra hæfniþátta sem áttu sér stoð í starfsauglýsingu.
Þá fékk A ekki afhent umsóknargögn annarra umsækjenda en þess sem hlaut starfið, þar með talið tveggja annarra umsækjenda sem boðið var í starfsviðtal. Ekki varð annað séð en að það hagsmunamat, sem stofnunin sagði hafa farið fram þótt það hefði ekki verið skjalfest, hefði verið reist á almennri og fortakslausri afstöðu þess efnis að almanna- og einkahagsmunir annarra umsækjenda væru ríkari en hagsmunir A af því að notfæra sér vitneskju úr umsóknargögnum þeirra, sem ekki væri í samræmi við fyrirmæli stjórnsýslulaga. Umboðsmaður taldi því að ákvörðun um afhendinga gagna til A hefði ekki heldur að þessu leyti byggst á réttum lagagrundvelli.
Enn fremur taldi umboðsmaður að Fjarskiptastofa hefði ekki gætt að skyldu sinni til að leiðbeina A um heimild sína til þess að fá ákvörðun um afhendingu gagnanna rökstudda og gerði athugasemd við að ekki yrði séð að upplýsingar um helstu forsendur ákvörðunarinnar hefðu verið skráðar í samræmi við upplýsingalög. Það lægi því ekkert fyrir um það hagsmunamat sem Fjarskiptastofu var skylt að gera og stofnunin sagði hafa farið fram í kjölfar gagnabeiðninnar. Að lokum taldi umboðsmaður að sú málsmeðferð Fjarskiptastofu að taka fjölmargar starfsumsóknir sem bárust eftir auglýstan umsóknarfrest til efnislegrar meðferðar án þess að framlengja frestinn með nýrri auglýsingu hefði ekki verið í samræmi við lög.
Umboðsmaður beindi þeim tilmælum til Fjarskiptastofu að taka beiðni A um aðgang að gögnum málsins til endurskoðunar, kæmi fram beiðni þess efnis frá honum, og haga meðferð málsins í samræmi við þau sjónarmið sem rakin væru í álitinu. Jafnframt að taka framvegis mið af þeim sjónarmiðum.
Umboðsmaður lauk málinu með áliti 30. júní 2025.