Gjald vegna leyfis til hundahalds. Ákvörðun um fjárhæð þjónustugjalda. Ráðstöfun tekjuafgangs af innheimtum þjónustugjöldum. Stjórnsýslueftirlit.

(Mál nr. 1041/1994)

Hundaræktarfélag Íslands kvartaði yfir gjaldtöku Reykjavíkurborgar vegna leyfa til hundahalds og taldi að gjaldið væri hærra en næmi kostnaði borgarinnar. Því væri um skattheimtu að ræða, sem ekki styddist við viðhlítandi skattlagningarheimild samkvæmt 40. og 77. gr. stjórnarskrárinnar. Um lagaheimild til gjaldtökunnar tók umboðsmaður fram að borgarstjórn Reykjavíkur hefði viðhlítandi lagaheimild í 2. og 3. mgr. 22. gr. laga nr. 81/1988, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, til töku gjalda fyrir útgáfu leyfa til hundahalds og þjónustu vegna hundahalds. Gjaldtakan væri þó því aðeins heimil að viss skilyrði væru uppfyllt, þ. á m. að ákvörðun um gjaldtökuna væri í samræmi við lagaheimild 22. gr. og að grundvallarreglur stjórnsýsluréttar væru virtar. Um ákvörðun á fjárhæð gjaldsins tók umboðsmaður fram, að þar sem 22. gr. laga nr. 81/1988 hefði ekki að geyma skattlagningarheimild í skilningi 40. og 77. gr. stjórnarskrárinnar, heldur heimild til töku þjónustugjalds, væri óheimilt að taka hærra gjald en sem næmi þeim kostnaði, sem almennt hlytist af að veita þjónustuna. Við skýringu gjaldtökuheimildarinnar yrði að hafa í huga þá almennu skýringarreglu, að íþyngjandi stjórnvaldsákvarðanir yrðu að byggjast á skýrri lagaheimild og að slíkar lagaheimildir yrðu almennt ekki skýrðar rúmt. Á grundvelli orðalags gjaldtökuákvæðisins taldi umboðsmaður ljóst, að meðal þeirra kostnaðarliða sem heimilt væri að taka tillit til væri kostnaður við útgáfu sjálfra leyfanna og þjónustu sem leyfishöfum væri veitt í tengslum við leyfin, sem og kostnaður við ábyrgðartryggingu hunda. Við nánari afmörkun á því, hvaða kostnaðarliði mætti leggja til grundvallar, yrði að miða við kostnað af þjónustu eða starfsemi, sem væri í nánum og efnislegum tengslum við útgáfu á leyfum og nauðsynlegu eftirliti þeim tengdu en ekki mætti líta til kostnaðar vegna óskyldra starfa starfsmanna heilbrigðiseftirlits Reykjavíkurborgar. Tók umboðsmaður sérstaklega fram, að ákvæði samþykktar um hundahald í Reykjavík gæti ekki víkkað gjaldtökuheimild laga nr. 81/1988, enda væri þar aðeins um stjórnvaldsfyrirmæli að ræða. Umboðsmaður taldi að kostnaður vegna innheimtu starfsmanna heilbrigðiseftirlits Reykjavíkurborgar á leyfisgjaldi í vanskilum, yrði ekki tekinn af leyfishöfum í hinu almenna leyfisgjaldi, án sérstakrar lagaheimildar. Þar sem lög nr. 81/1988 mæltu fyrir um þau þvingunarúrræði og ráðstafanir til að knýja á um framkvæmd heilbrigðissamþykkta, þ.ám. tiltæk úrræði við innheimtu tiltekinna þjónustugjalda, en mæltu ekki fyrir um heimild til töku innheimtukostnaðar við almenna innheimtu þjónustugjalda, varð ekki talið að heilbrigðisyfirvöld hefðu slíka heimild. Umboðsmaður tók fram, að ekki væri tekin afstaða til þess í álitinu hvaða reglur giltu um heimild til að heimta greiðslu af leyfishafa í tengslum við málssókn eða fullnustuaðgerðir. Af gögnum þeim sem lögð voru fyrir umboðsmann var ljóst að um árabil höfðu tekjur af þjónustugjöldum vegna hundahalds verið hærri en bókfærð útgjöld af hundaeftirlitinu. Af hálfu Reykjavíkurborgar var því þó haldið fram að vegna ótalins kostnaðar hefði í raun ekki orðið tekjuafgangur. Umboðsmaður taldi að ekki væri nægjanlega ljóst hvaða kostnaðarliðir hefðu verið lagðir til grundvallar við útreikning gjaldsins og að því yrði ekki fullyrt hvort of hátt gjald hefði verið tekið. Beindi umboðsmaður þeim tilmælum til borgarstjórnar Reykjavíkur að láta fara fram traustan útreikning á kostnaðarliðum vegna leyfisgjalda fyrir árið 1995 og benti á, að ef gjaldið hefði verið ákvarðað of hátt bæri að lækka það. Þá tók umboðsmaður það fram, að ef tekjuafgangur yrði vegna atvika sem ekki urðu séð fyrir við útreikning þjónustugjalds, væri almennt óheimilt að verja þeim tekjum til að greiða aðra kostnaðarliði en þá sem gjaldinu er ætlað að ganga til greiðslu á. Taldi umboðsmaður almennt óheimilt að nota mismuninn á annan hátt en til lækkunar á fjárhæð gjalds sem tekið yrði árið eftir eða á næsta gjaldatímaabili. Að lokum vísaði umboðsmaður til fyrra álits síns (mál 818/1993) (SUA 1994:104) um eftirlitsskyldu stjórnvalda vegna staðfestingar á gjaldskrá. Með skírskotun til þýðingar slíkrar staðfestingar beindi umboðsmaður þeim tilmælum til umhverfisráðuneytisins, að eftir að útreikningur borgaryfirvalda á kostnaðarliðum lægi fyrir yrðu þeir athugaðir af ráðuneytinu í samræmi við þau sjónarmið sem í álitinu greindi.