Skattar og gjöld. Þjónustugjöld. Jafnræðisregla. Valdframsal.

(Mál nr. 9688/2018)

A kvartaði yfir að umhverfis- og auðlindaráðuneytið staðfesti gjaldskrá Vatnajökulsþjóðgarðs um gjaldtöku vegna tjaldsvæða og þjónustu í þjóðgarðinum. Óskað var eftir athugun á því hvort gjaldtaka á grundvelli reglugerðar samrýmdist ákvæðum laga og reglna um um töku þjónustugjalda. Þá voru gerðar athugasemdir við fjárhæðir og útreikning gjaldanna. Ennfremur taldi A að gjaldtakan færi í bága við jafnræðisreglu stjórnsýslulaga og að þjóðgarðurinn hefði, án lagaheimildar, framselt einkaaðila verkefni tengd innheimtu gjaldanna.

Athugun umboðsmanns laut einkum að því hvort þeir þjónustuþættir og kostnaðarliðir sem felldir hefðu verið undir gestagjöld rúmuðust innan þeirrar lagaheimildar sem gildir um gjaldið. Þar á meðal voru liðir sem sneru að afnotum bílastæðum og aðgengi að salernum en jafnframt annarri þjónustu og eftirliti. Í því sambandi tók umboðsmaður til athugunar hvort sú aðferð að ákvarða þjónustugjaldið með því að miða fjárhæð þess, fasta krónutölu, við mögulegan farþegafjölda bifreiðar sem kemur í Skaftafell væri í samræmi við grundvallarreglur stjórnsýsluréttar um þjónustugjöld.

Umboðsmaður taldi að ekki yrði annað lagt til grundvallar en að kostnaðarliðir þjónustugjaldsins hefðu lotið að tilteknum afmörkuðum þáttum í starfsemi þjóðgarðsins, sem stæðu í beinum tengslum við þá þjónustu sem veitt væri í Skaftafelli, en ekki verið til að fjármagna uppbyggingu á svæðinu eða standa undir stofnkostnaði við að koma þar upp búnaði. Ekki væru því forsendur til annars en að telja þá þætti og kostnaðarliði, sem felldir voru undir gestagjaldið, í nægilega nánum og efnislegum tengslum við að veita þá þjónustu sem um ræddi. Um það segir m.a. í bréfi umboðsmanns:

„Í 4. gr. framangreindrar reglugerðar [nr. 727/2017] er farin sú leið að ákvarða þjónustu­gjaldið með fastri krónutölu á hverja bifreið sem kemur inn á svæðið og miða gjaldið við stærð hennar. Af þessu leiðir að það hefur ekki áhrif á þá fjárhæð sem greidd er hverju sinni hversu margir eru í raun í viðkomandi bifreið. Ég tek það fram að eins og reglugerðin hljóðar er þarna ekki um að ræða gjald sem er eingöngu innheimt vegna afnota af bílastæði heldur er þetta aðferð við að innheimta þjónustugjald og þá sólarhrings­­gjald fyrir þjónustu sem gestir eiga kost á í þjóðgarðinum nema sérstök heimild sé til þess að innheimta gjald fyrir hana aukalega. Eins og lagagrundvöllur hins almenna þjónustugjalds þjóðgarðsins hljóðar er ljóst að þar er heimilað að fella undir eitt gjald aðgengi að mismunandi þjónustu innan þjóðgarðsins og til grundvallar á ákvörðun um fjárhæð gjaldsins liggja mismunandi kostnaðarliðir. Við þær aðstæður verður að játa stjórnvöldum heimild til að byggja þjónustugjöld á skynsamlegri áætlun enda vandkvæði á að sérgreina nákvæmlega ákveðna kostnaðar­liði niður á t.d. fjölda þeirra einstaklinga sem nota sér í raun tiltekna og afmarkaða þjónustu innan þjóðgarðsins. Í þessum tilvikum byggist grundvöllur þjónustugjaldsins á því að greiðendur þess eigi kost á að nýta sér þessa mismunandi þjónustu og það séu ákveðnar líkur á því að mögulegur farþegafjöldi og þá stærð hlutaðeigandi ökutækis, að því er varðar t.d. þann þátt þjónustunnar sem lýtur að afnotum af bílastæði, endurspegli hlutdeild í þeirri þjónustu sem gjaldtakan í heild byggist á. Af þessu leiðir einnig að þar sem gjaldið veitir aðgang að þjónustunni í sólarhring kann sá tími sem viðkomandi gestur dvelur í þjóðgarðinum að hafa áhrif á í hvaða mæli hann hefur í raun notað þá þjónustu sem hann hefur greitt fyrir. Með vísan til þessa geri ég ekki athugasemdir við að gjaldið sé föst krónutala, mismunandi eftir mögulegum farþegafjölda í ökutækinu, án tillits til þess hversu margir farþegar eru í reynd í hverju ökutæki.“

Að fengnum skýringum umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og athugasemdum Vatnajökulsþjóðgarðs taldi umboðsmaður ekki forsendur til að gera athugasemdir við það mat ráðuneytisins að fyrirkomulag innheimtu gjaldsins fæli ekki í sér ójafnræði. Ekki yrði annað ráðið en öllum sem nýti sér þjónustuna beri að greiða gjaldið. Því væru ekki heldur forsendur til að gera athugasemdir við mat ráðuneytisins að það, að það kunni að vera meiri erfiðleikum háð að innheimta þjónustugjöld af þeim sem koma á svæðið í ökutækjum á erlendum skráningarnúmerum, feli í sér brot á jafnræðisreglum.

Þá yrði ekki annað ráðið af svörum ráðuneytisins en að einungis hafi verið samið við einkaaðila um framkvæmd gjaldtökunnar með svokölluðum sérleyfissamningi. Allar ákvarðanir væru hins vegar í höndum þjóðgarðsins. Umboðsmaður fékk því ekki séð að um ólögmætt valdaframsal innan stjórnsýslunnar hefði verið að ræða.