Landbúnaður. Búvörusamningar. Stjórnvaldsfyrirmæli. Breyting á stjórnsýsluframkvæmd. Réttmætar væntingar. Afturvirkni.

(Mál nr. 9668/2018)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir breytingu á uppgjörstímabili greiðslna til sauðfjárbænda vegna ullarnýtingar á árinu 2017 sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra gerði með ákvæði til bráðabirgða í reglugerð sem tók gildi 1. janúar 2018. Breytingin fólst í því að uppgjörstímabilið var lengt úr 12 mánuðum, eins og tíðkast hafði um árabil, í 14 mánuði. Í kvörtuninni var byggt á því að breytingin hefði haft þau áhrif að greiðslur fyrir hvert kíló ullar sem framleiðendur lögðu inn á tímabilinu hefðu orðið umtalsvert lægri en ella þar sem umsamin heildarfjárhæð samkvæmt búvörusamningi hefði skipst niður á meira magn ullar en áður vegna lengra innleggstímabils. Þá hefði umrædd breyting verið gerð með reglugerð sem hefði ekki verið birt fyrr en um tveimur mánuðum eftir að uppgjörstímabili samkvæmt eldri reglugerð lauk.

Niðurstaða atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins var einkum byggð á því að breytingin hefði verið málefnaleg og gerð í þeim tilgangi að samræma tímabil allra stuðningsgreiðslna sem kveðið væri á um í búvörusamningi þannig að greiðslur miðist við innlagða ull á almanaksárinu en ekki við innlagða ull á tímabilinu 1. nóvember til 31. október líkt og tíðkast hefði um árabil. Því hafi verið ákveðið að lengja uppgjörstímabilið árið 2017 úr 12 mánuðum í 14 mánuði, þ.e. frá 1. nóvember 2016 til 31. desember 2017, svo hægt yrði að hefja nýtt uppgjörstímabil 1. janúar 2018. Þá var vísað til þess að sauðfjárbændur hefðu mátt vænta breytinganna í ljósi gildandi búvörusamnings.

Umboðsmaður komst að þeirri niðurstöðu að ráðherra hefði ekki haft heimild að lögum til að breyta uppgjörstímabilinu með þeim hætti sem gert var og slíkar breytingar hefði ekki mátt leiða af ákvæðum búvörusamnings. Umboðsmaður benti enn fremur á að lenging uppgjörstímabilsins vegna 2017 hefði falið í sér breytingu á stjórnsýsluframkvæmd sem tíðkast hefði um árabil. Með vísan til dóma­framkvæmdar Hæstaréttar benti umboðsmaður á þá óskráðu meginreglu að við breytingu á stjórnsýsluframkvæmd, sem lengi hefði tíðkast og almennt væri kunn, þurfi stjórnvöld m.a. kynna hana þannig að þeir sem breytingin varðar get gætt hagsmuna sinna. Sú aðferð sem viðhöfð var við breytingarnar og tímasetning hennar hafi í reynd komið í veg fyrir að ullarframleiðendur, sem lagt höfðu inn ull í samræmi við áðurgildandi framkvæmd og reglur, gætu brugðist við til að takmarka þá lækkun á greiðslum og endurgreiðslu sem leiddi af breytingunni. Að mati umboðsmanns samrýmdist aðferð ráðuneytisins við breytingu á uppgjörs­tímabilinu vegna 2017 ekki þeim reglum sem viðhafa þurfi við breytingar á stjórnsýslu­framkvæmd. Þá hafi breytingin farið gegn réttmætum væntingum þeirra ullarframleiðenda sem lagt höfðu inn ull í samræmi við fyrri framkvæmd. Að auki fól bráðabirgðaákvæðið í sér afturvirka reglusetningu.

Umboðsmaður beindi þeim tilmælum til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að gerðar yrðu ráðstafanir til að rétta hlut A og annarra framleiðenda ullar sem lagt höfðu inn ull á umræddu tímabili og að til framtíðar yrði gætt að þeim sjónarmiðum sem rakin væru í álitinu við breytingar á stjórnsýsluframkvæmd og útgáfu reglugerða af því tilefni.