Menntamál. Framhaldsskólar. Sveinspróf. Stjórnsýslukæra. Rannsóknarreglan. Yfirstjórnunar- og eftirlitsheimildir.

(Mál nr. 9896/2018)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis vegna afgreiðslu mennta- og menningarmálaráðuneytisins á erindi hans þar sem hann hafði lýst því að hann væri ósáttur við tiltekin atriði við framkvæmd sveinsprófs í tiltekinni iðngrein sem hann þreytti og urðu til þess að hann óskaði eftir að halda ekki áfram próftöku. Eftir að hafa leitað eftir afstöðu viðkomandi prófnefndar til erindis A tilkynnti ráðuneytið honum að þar sem fram hefði komið í kvörtun hans að hann hefði sagt sig frá próftöku yrði að teljast að próftöku væri lokið án niðurstöðu. Af þessari ástæðu teldi ráðuneytið ekki tilefni til að aðhafast frekar í málinu.

Umboðsmaður benti á að ráðherra hefði almenna yfirstjórn og eftirlit með framkvæmd sveinsprófa. Prófnefnd sem skipuð væri af ráðherra væri lægra sett stjórnvald og aðilar máls ættu því að geta kært ákvarðanir, og eftir atvikum framgöngu slíkra nefnda, með stjórnsýslukæru til ráðherra. Ljóst væri að ráðuneytið væri því almennt bært til að fjalla um og taka afstöðu til allra þeirra álitaefna sem kæmu upp í tengslum við framkvæmd slíkra prófa og gæti jafnframt eftir atvikum verið það skylt enda hlutverk þess að tryggja að framkvæmd slíkra prófa væri í samræmi við lög.

Umboðsmaður taldi að í málinu hefði skort á að ráðuneytið tæki skýra afstöðu til þess að hvaða marki þau atriði sem erindi A laut að væru kæranleg til ráðuneytisins með stjórnsýslukæru. Ef sú hefði verið raunin hefði þurft að leysa úr þeim hluta málsins í því formi að undangenginni nauðsynlegri rannsókn. Í ljósi skýringa ráðuneytisins um að það hefði ekki talið sér fært að leggja faglegt mat á tiltekin ágreiningsefni tók umboðsmaður fram að ylti niðurstaða máls á mati á atriðum er krefðust sérfræðiþekkingar bæri stjórnvaldi að kalla eftir sérfræðilegri aðstoð, hefði það sjálft ekki yfir að ráða nauðsynlegri þekkingu á viðkomandi sviði.

Var það niðurstaða umboðsmanns að afstaða ráðuneytisins, um að ekki hefði verið tilefni til að aðhafast frekar vegna erindis A vegna framkvæmdar sveinsprófsins þar sem hann hefði hætt próftöku, hefði ekki verið í samræmi við þær yfirstjórnunar- og eftirlitsskyldur sem á því hvíla gagnvart prófnefndinni. Þrátt fyrir að A hefði hætt próftöku vegna ágreinings við prófnefndina hefði það ekki leyst ráðuneytið undan þeim eftirlitsskyldum sem á því hvíla um að taka málið til efnislegrar skoðunar og rannsaka það með fullnægjandi hætti. Þar hefði jafnframt þurft að taka afstöðu til þess hvort um stjórnsýslukæru væri að ræða. Viðbrögð ráðuneytisins við erindum A hefðu því ekki verið fullnægjandi og sá skortur sem varð á að það brygðist efnislega við erindum hans hefði ekki verið í samræmi við lög. Þá var það niðurstaða umboðsmanns að svör ráðuneytisins til A í tilefni af erindum hans hefði ekki verið nægjanlega skýr um þann lagalega farveg sem málið hefði verið sett í.

Umboðsmaður beindi því til ráðuneytisins að það tæki erindi A til meðferðar að nýju, kæmi  fram beiðni þar um frá honum. Þá beindi hann þeim almennu tilmælum til ráðuneytisins að það tæki í störfum sínum framvegis mið af þeim sjónarmiðum sem rakin væru í álitinu. Loks beindi hann því til ráðuneytisins að það tæki til skoðunar hvort tilefni væri til að setja reglur um uppbyggingu, inntak og tilhögun sveinsprófa í viðkomandi iðngrein í samræmi við ákvæði reglugerðar um sveinspróf.