Menntamál. Háskólar. Úrskurðarhlutverk háskólaráðs. Valdframsal.

(Mál nr. 9891/2018)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði m.a. yfir ákvörðun háskólaráðs Háskóla Íslands um að vísa frá beiðni hennar um að skipaður yrði óháður aðili til að endurmeta svokallað miðbikspróf sem hún þreytti í doktorsnámi við X-deild skólans. Þá lá fyrir ákvörðun kærunefndar í málefnum nemenda við háskólann þar sem staðfestar voru ákvarðanir setts deildarforseta um tiltekin atriði í tengslum við prófið. Frávísun háskólaráðs var byggð á því að ráðið hefði framselt endanlegt úrskurðarvald í slíkum málum til fyrrnefndrar nefndar innan háskólans. Í skýringum til umboðsmanns byggði háskólaráð á því að skýra yrði tiltekin ákvæði laga um opinbera háskóla með þeim hætti að heimild væri til innra framsals úrskurðarvalds í nemendamálum. Athugun umboðsmanns laut að því hvort þessi afstaða háskólaráðs hefði verið í samræmi við lög.

Umboðsmaður rakti ákvæði laga um stjórnsýslu og stjórnskipulag opinberra háskóla. Benti hann á að við úrlausn málsins hefði jafnframt þýðingu að líta til almennra reglna stjórnsýslu­réttarins um valdframsal stjórnvalda, og þá sérstaklega reglna um innra vald­framsal. Almennt væri gengið út frá því að forstöðumenn hefðu ríka heimild til að fela starfsmönnum tiltekin verkefni á grundvelli stjórnunarréttar síns og þyrfti slíkt ekki að byggja á sérstakri lagaheimild. Þegar verkaskipting væri aftur á móti ákveðin með lögum væri stjórnvaldið bundið af því að framkvæma verkefni sín með þeim hætti sem löggjafinn hefði mælt fyrir um.

Umboðsmaður benti  á að mælt væri fyrir um skipan háskólaráðs í lögum þar sem löggjafinn hefði tekið afstöðu til hvernig háskólaráð væri skipað og hvaða fulltrúar ættu þar sæti. Þá væri háskólaráði falið úrskurðarvald í málefnum háskólans með lögum. Í lögskýringargögnum væri sérstaklega tekið fram að ráðið gæti þurft að skera úr um hvort meðferð skóla eða deildar á skriflegu erindi nemanda hefði verið í samræmi við lög og reglur háskólans. Jafnframt væri þar lögð sérstök áhersla á aðkomu utanaðkomandi fulltrúa að ráðinu til að styrkja endurskoðunar- og úrskurðarhlutverk þess. Af samspili laga og lögskýringargagna taldi umboðsmaður mega leiða að löggjafinn hefði tekið afstöðu til þess að háskólaráð færi með endurskoðunar- og eftirlitshlutverk í málefnum háskólans. Það væri því hlutverk háskólaráðs að hafa endanlegt úrskurðarvald í þeim málum sem þar féllu undir.

Umboðsmaður taldi jafnframt þurfa að hafa í huga að kærunefnd í málefnum nemenda starfaði á grundvelli innri reglna háskólans. Ljóst væri að nefndinni væri ekki eingöngu falið að undirbúa kvörtunar- og kærumál til afgreiðslu háskólaráðs heldur hefði hún farið með endanlegt ákvörðunarvald háskólans í þeim málum sem væri vísað til hennar. Þá væri nefndin ekki eiginleg undirnefnd háskólaráðs, skipuð fulltrúum þess, heldur skipaði háskólaráð fulltrúa í nefndina samkvæmt tilnefningu rektors. Allir fulltrúar nefndarinnar væru starfsmenn skólans. Ekki yrði séð að þetta fyrirkomulag við skipun nefndarinnar tryggði að sjónarmið allra þeirra hópa sem löggjafinn hefði lagt áherslu á og ákveðið að skyldu sitja í háskólaráði kæmust að í störfum nefndarinnar eða að það samrýmdist vel þeim sjónarmiðum sem hreyft hafði verið við í lögskýringargögnum um að aðkoma utanaðkomandi fulltrúa að háskólaráði styddi við endurskoðunar- og úrskurðarhlutverk þess. Háskólaráði gæti þó, eins og stjórnvöldum almennt, verið heimilt að leita sér aðstoðar og ráðgjafar við úrlausn einstakra mála eða álitaefna. Þá kynni háskólaráð að fara þá leið að setja upp sérstaka nefnd eða fela tilteknum aðila innan háskólans að fjalla um tiltekin málefni, t.d. til að samræma meðferð og úrlausn mála. Það gæti þó ekki breytt því að háskólaráð færi með úrskurðarvaldið í málefnum háskólans og bæri þar með ábyrgð á meðferð slíkra mála. Úrskurðarvald ráðsins væri jafnframt liður í að háskólaráð gæti beitt stjórnunarheimildum sínum vegna þess hlutverks sem því væri falið með lögum.

Í málinu hafði háskólaráð byggt á því að skýra bæri ákvæði laga um opinbera háskóla sem kveddi á um úrskurðarvald ráðsins með hliðsjón af því ákvæði sem mælti fyrir um að háskólaráð setti reglur, m.a. um málskotsrétt nemenda innan háskólans. Í ljósi þess tók umboðsmaður fram að sú almenna heimild sem þar væri byggt á gæti ekki breytt því að endanlegt úrskurðarvald væri lögum samkvæmt í höndum háskólaráðs.

Að framangreindu virtu taldi umboðsmaður að með hliðsjón af gildandi lagagrundvelli gæti það ekki samrýmst þeim almennu reglum sem gilda um valdframsal stjórnvalda að háskólaráði væri heimilt að framselja úrskurðarvald sitt, sem því væri falið með lögum um opinbera háskóla, til annarra aðila innan háskólans. Háskólaráði hefði því ekki verið heimilt að lögum að framselja endanlegt úrskurðarvald sitt með innra valdframsali til kærunefndar í málefnum nemenda. Ákvörðun háskólaráðs að vísa erindi A frá hefði því ekki verið í samræmi við lög.

Að lokum tók umboðsmaður fram að teldi háskólaráð að breytinga væri þörf og það fyrirkomulag sem viðhaft væri með tilkomu sérstakrar kærunefndar í málefnum nemenda væri heppilegra bæri að fjalla um þau mál á vettvangi þeirra sem koma að lagasetningu um þessi mál. Þegar lægi fyrir að háskólaráð hefði komið þessu á framfæri við mennta- og menningarmálaráðherra en það yrði að vera ákvörðun Alþingis hvort tilefni væri til breytinga á hlutverki ráðsins og þá hverra.