Útlendingar. Synjun á umsókn um alþjóðlega vernd. Ábyrgð umsækjanda á töfum máls. Lögskýring. Skyldubundið mat. Rannsóknarreglan.

(Mál nr. 9722/2018)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir meðferð stjórnvalda á umsókn hans um alþjóðlega vernd hér á landi sem Útlendingastofnun hafði hafnað og kærunefnd útlendingamála staðfest. Í kjölfar þess að A leitaði til umboðsmanns hafnaði kærunefndin jafnframt beiðni hans um endurupptöku málsins.  Ósk A eftir að réttaráhrifum úrskurðarins yrði frestað á meðan hann færi með mál sitt fyrir dómstóla sem var jafnframt hafnað.

Í lögum um útlendinga kemur fram að ef meira en 12 mánuðir hafi liðið frá því umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum, og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs, skuli taka hana til efnismeðferðar. Niðurstaða kærunefndarinnar byggðist á því að þrátt fyrir að 12 mánaða fresturinn samkvæmt lagaákvæðinu væri liðinn yrði umsóknin ekki tekin til efnismeðferðar þar sem tafir á afgreiðslu umsóknarinnar væru á ábyrgð A. Með því að framvísa fölsuðu vegabréfi við komu til landsins hefði hann hrint af stað atburðarás með þeim afleiðingum að tafir urðu á málinu sem teldust á ábyrgð hans. Athugun umboðsmanns laut að því hvort framangreind afstaða nefndarinnar og þær forsendur sem byggt var á við túlkun nefndarinnar hefði verið í samræmi við lög.

Umboðsmaður benti á að af málsatvikum yrði ráðið að þegar eftir komu A til landsins 14. maí 2017 hefði legið fyrir að hann hefði framvísað fölsuðu vegabréfi sem leiddi til handtöku hans og þar með vitneskju lögreglu um mál hans. Stjórnvöld ættu að vera meðvituð um 12 mánaða tímamörkin samkvæmt lögum um útlendinga og hafa þau í huga ef þau teldu mikilvægt að flutningur færi fram fyrir þann tíma. Þá yrði að túlka lagákvæðið í ljósi þess að samkvæmt lögum og við framkvæmd þessara mála gæti skipt máli að mörg stjórnvöld, sem mynda heildstætt kerfi og annast saman um framkvæmd laganna, hefðu aðkomu að meðferð mála. Við mat á því hvort tafir væru á ábyrgð umsækjanda þyrfti að leggja heildstætt og einstaklingsbundið mat á hvert og eitt mál og gæta almennt að þeirri stöðu sem umsækjendur um alþjóðlega vernd væru gjarnan í þegar kæmi að ferðaskilríkjum, þ.e. að þeir væru oft með fölsuð skilríki.

Umboðsmaður benti á að með hliðsjón af atvikum málsins, og þá einkum hvernig meðferð málsins var háttað af hálfu stjórnvalda í aðdraganda flutningsins, væri ekki fullnægjandi að fella ábyrgð á töfunum á A vegna þess að hann hefði framvísað fölsuðu vegabréfi við komu landsins. Allt frá komu hans hefði legið fyrir að hann hefði framvísað fölsuðu vegabréfi. Hann hefði ekkert forræði haft á gangi málsins og þar með framkvæmd og tímasetningu brottflutnings af landinu eftir að kærunefndin hefði í lok desember 2017 hafnað að fresta réttaráhrifum úrskurðar í máli hans og flutningi úr landi.  Umboðsmaður féllst ekki á að rannsókn kærunefndarinnar á töfum málsins hefði verið til þess fallin að upplýsa hvort og þá hvernig þeir sem áttu að framkvæma flutninginn úr landi hafi, eftir að ákæra var gefin út og hann kom fyrir dóm og játaði, gengið eftir því hvort þau yfirvöld sem fóru með sakamálið teldu enn þörf á veru hans á landinu. Þó hefði verið sérstakt tilefni til þess þar sem m.a. hafi legið fyrir í gögnum málsins afstaða lögreglustjórans á Suðurnesjum að tafir málsins hefðu ekki verið á ábyrgð A.

Niðurstaða umboðsmanns var að ekki væri hægt að fallast á að málið hefði verið fullupplýst eða að legið hafi fyrir að A hafi borið ábyrgð á töfum málsins vegna þess eins að framvísa fölsuðu vegabréfi. Var það álit hans að úrskurður kærunefndarinnar hafi ekki verið í samræmi við lög þar sem nefndin byggði á lögskýringu sem hafði í för með sér að atvik málsins voru ekki metin heildstætt. Þá skorti á að rannsókn málsins hefði verið fullnægjandi. Voru það tilmæli hans til nefndarinnar að hún tæki mál A til meðferðar að nýju, kæmi fram beiðni þess efnis frá honum, og leysti þá úr málinu í samræmi við þau sjónarmið sem rakin væru í álitinu og hefðu þau jafnframt framvegis í huga.