Málefni fatlaðs fólks. Sveitarfélög. Færni- og heilsumat. Málsmeðferð stjórnvalda. Rannsóknarreglan. Skráningarskylda stjórnvalda. Meinbugir.

(Mál nr. 9897/2018)

Réttindagæslumaður fatlaðs fólks leitaði til umboðsmanns Alþingis, fyrir hönd A, og kvartaði yfir málsmeðferð og starfsháttum fjölskyldusviðs sveitarfélagsins X og færni- og heilsumatsnefndar í heilbrigðisumdæmi höfuðborgarsvæðisins í tengslum við dvöl hans á hjúkrunarheimilinu Y. Athugasemd var gerð við aðkomu sveitarfélagsins að umsóknum A um færni- og heilsumat og dregið í efa að hann hafi óskað eftir dvöl á hjúkrunarheimili. Einnig að annmarkar hafi verið á málsmeðferð færni- og heilsumatsnefndar en ekki væri að sjá að endurnýjun umsóknar hafi verið samþykkt af A. Þetta hafi leitt til að hann telji sig vistaðan á hjúkrunarheimili gegn eigin vilja. Athugun umboðsmanns laut einkum að aðkomu sveitarfélagsins X í aðdraganda þess að umsóknir um færni- og heilsumat voru lagðar fram og meðferð færni og heilsumatsnefndar heilbrigðisumdæmis höfuðborgarsvæðisins.

Umboðsmaður benti á að ákvörðun um dvöl á hjúkrunarheimili í stað þess að búa áfram á eigin heimili hafi veruleg áhrif á líf og réttindi fólks, s.s. greiðslur, þjónustu, daglegt líf og gæti takmarkað persónufrelsi, athafnafrelsi og friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu með ýmsum hætti. Þótt gert væri ráð fyrir að frumkvæði um dvöl á hjúkrunarheimili kæmi frá aðilanum sjálfum væri ekki hægt að leggja það eitt að viðkomandi hafi fyllt út staðlað umsóknareyðublað að jöfnu við að viðkomandi hafi að öllu leyti áttað sig á þeim áhrifum sem dvölin getur haft á líf hans eða hann hafi lýst því yfir að vilji hans standi ótvírætt til þeirra. Mat á því hvort sjálfákvörðunarréttur einstaklings hafi verið virtur sé atviksbundið og geti þurft að taka mið af ýmsum atriðum í samskiptum viðkomandi við stjórnvöld sem eiga í hlut. Það sé m.a. háð því að viðkomandi hafi haft forsendur til að móta sér afstöðu til þess hvort hann vilji haga búsetu sinni með þessum hætti þrátt fyrir þær breytingar sem verða við það á persónulegum högum hans. Af því leiði að mikilvægt sé að tryggja að viðkomandi fái fullnægjandi fræðslu áður en hann tekur ákvörðun af sinni hálfu.

Umboðsmaður tók fram að í ljósi þeirrar áherslu sem lögð væri á sjálfsákvörðunarrétt fatlaðs fólks í lögum og alþjóðasamningum, mikilvægi hagsmuna sem voru undir í máli A og þeirra breytinga sem dvöl á hjúkrunarheimili gat haft á stöðu hans til langframa hafi sveitarfélaginu X borið að tryggja að fyrir lægi hvað bjó að baki umsókn A og þar með að hún yrði í framhaldinu lögð í réttan farveg. Benti hann á að engin gögn lægju fyrir um samskipti A við sveitarfélagið eða frekari gögn sem vörpuðu ljósi á hvenær hefði verið komist að þeirri niðurstöðu að dvöl á hjúkrunarheimili væri æskileg fyrir hann. Sveitarfélaginu hafi því borið að skrá þau samskipti sem fram fóru milli starfsmanns þess og A í aðdraganda þess að tekin var ákvörðun um að senda umsókn um færni- og heilsumat og endurnýja hana ári síðar og varðveita þau gögn. Hins vegar taldi umboðsmaður sig ekki hafa forsendur til að leggja það til grundvallar að A væri vistaður á hjúkrunarheimili gegn vilja sínum. Það væri svo sjálfstætt úrlausnarefni hvort A teldi sig geta flutt af hjúkrunarheimilinu í ljósi þeirrar þjónustu sem væri í boði í sveitarfélaginu. 

Umboðsmaður benti jafnframt á að umsókn A sem byggt var á í málinu til færni- og heilsumatsnefndarinnar hafi hvorki verið stimpluð af A sjálfum né undirrituð af starfsmanni sveitarfélagsins. Var það niðurstaða umboðsmanns að færni- og heilsumatsnefnd hafi borið að tryggja sönnun fyrir því að sú umsókn stafaði frá A og þá um leið afla samþykki hans sem heimilaði nefndinni að afla upplýsinga m.a. um heilsufar hans. Málsmeðferð nefndarinnar hafi að þessu leyti ekki samrýmst rannsóknarreglu stjórnsýslulaga.

Umboðsmaður beindi þeim tilmælum til heilbrigðisráðuneytisins að taka til athugunar hvort tryggja mætti betur málsmeðferð við umsóknir um færni- og heilsumat vegna dvalar- og hjúkrunarrýma þannig að meðferð slíkra mála samrýmist betur sjónarmiðum um sjálfsákvörðunarrétt fatlaðs fólks sem því er tryggður í lögum og alþjóðasamningum sem og þeim sjónarmiðum sem fram koma í upplýsingalögum um skráningu mála og skyldum stjórnvalda til varðveislu gagna. Jafnframt að taka til skoðunar hvort og þá hvaða breytingar væri rétt að gera á gildandi lagaumhverfi til að tryggja betur með almennum hætti að einstaklingur sem hyggst sækja um dvöl á hjúkrunarheimili fái fullnægjandi fræðslu um áhrif þess á réttarstöðu sína.

Þá vakti umboðsmaður athygli landlæknis á athugasemdum sem gerðar voru, með hliðsjón af persónuverndarlögum, við umsóknareyðublöð sem landlæknir gefur út vegna umsókna um færni- og heilsumat og senda Persónuvernd jafnframt afrit af álitinu til upplýsinga. Þá var Gæða- og eftirlitsstofnun félagsþjónustu og barnaverndar sent afrit af álitinu til upplýsinga.