A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir úrskurði dómsmálaráðuneytisins þar sem staðfest var ákvörðun sýslumannsins í Vestmannaeyjum að synja A um að gangast undir próf í dómtúlkun. Niðurstaða stjórnvalda var byggð á því að ákvæði laga um dómtúlka og skjalaþýðendur hefði verið túlkað með þeim hætti í framkvæmd að aðili verði að hafa löggildingu sem skjalaþýðandi af íslensku yfir á annað tungumál og öfugt til að undirgangast próf í dómtúlkun. Athugun umboðsmanns laut að því hvort fullnægjandi lagaheimild væri til staðar til að gera þessa kröfu og þá hvort sú lagaheimild væri nægilega skýr til að hægt væri að útiloka skjalaþýðendur frá því að þreyta slíkt próf hefðu þeir ekki löggildingu í báðar áttir.
Umboðsmaður tók fram að í lögum um dómtúlka og skjalaþýðendur væri kveðið á um hvaða skilyrði þyrfti að uppfylla til að öðlast löggildingu sem skjalaþýðandi og dómtúlkur. Þar kæmi m.a. fram að standast þyrfti viðeigandi próf en einnig að sá einn gæti hlotið löggildingu sem dómtúlkur sem jafnframt væri löggiltur sem skjalaþýðandi. Aftur á móti væri hvergi vikið að því í lögunum að aðilar skyldu vera löggiltir skjalaþýðendur í báðar áttir til að hljóta löggildingu sem dómtúlkar. Þá yrði heldur ekki séð af lögskýringargögnum að þar hefði verið gert ráð fyrir þessu skilyrði eða að ráðherra hefði talið tilefni til að mæla fyrir um slíkt í reglugerð, þótt þar væri vikið að fyrirkomulagi slíkra prófa.
Umboðsmaður benti á að túlkun ráðuneytisins að þessu leyti og framkvæmd stjórnvalda leiddi til þess að settar hefðu verið skorður fyrir því að þreyta próf í dómtúlkun sem fælu í sér að viðkomandi þyrfti að hafa réttindi sem skjalaþýðandi í báðar áttir. Kröfur laga um opinber leyfi til að stunda tiltekna atvinnu, svo sem löggilding dómtúlka, fælu í sér takmörkun á því atvinnufrelsi sem verndað væri í 75. gr. stjórnarskrárinnar. Í samræmi við það yrðu lagafyrirmæli um inntak og fyrirkomulag slíks leyfis að vera skýr og glögg og ekki túlkuð með rýmri hætti, borgaranum í óhag, en leiddi af orðanna hljóðan. Kröfur stjórnvalda um að viðkomandi hefði lokið prófum í báðar áttir í skjalaþýðingum til að þreyta próf í dómtúlkun, eins og í máli A, þyrftu því að uppfylla þessar kröfur um lagaheimild og skýrleika hennar.
Umboðsmaður benti á að lög um dómtúlka og skjalaþýðendur fjölluðu um tvær aðskildar löggildingar þar sem könnuð væri hæfni á mismunandi sviðum. Þrátt fyrir að löggjafinn hafi ákveðið að dómtúlkar skyldu einnig vera skjalaþýðendur væri það hlutverk prófa að skera úr um hvort aðili uppfyllti skilyrði laga og reglugerðar um að hafa þá þekkingu og færni sem nauðsynleg væri til að gegna starfi löggilts dómtúlks, þ.e. hvort viðkomandi gæti túlkað í báðar áttir. Var það álit umboðsmanns að lög um dómtúlka og skjalaþýðendur, fælu ekki í sér fullnægjandi lagaheimild fyrir stjórnvöld til að byggja á því að skjalaþýðendur þurfi að hafa próf í að þýða úr íslensku yfir á erlent tungumál og öfugt til að þreyta próf í dómtúlkun. Var það því niðurstaða hans að ákvörðun dómsmálaráðuneytisins í máli A, þar sem á því var byggt, hefði ekki verið í samræmi við lög.
Umboðsmaður beindi þeim tilmælum til dómsmálaráðuneytisins að taka mál A til meðferðar að nýju, kæmi fram beiðni þess efnis frá henni, og leysti þá úr málinu í samræmi við þau sjónarmið sem fram kæmu í álitinu. Auk þess bendi hann þeim almennu tilmælum til ráðuneytisins að það tæki framvegis mið af þeim sjónarmiðum sem kæmu fram í álitinu.