A kvartaði yfir úrskurði félagsmálaráðuneytisins um gildi kjörskrár í sveitarstjórnarkosningum í Raufarhafnarhreppi hinn 23. maí 1998. Með úrskurðinum var staðfest niðurstaða kjörnefndar samkvæmt fyrri málsl. 2. mgr. 93. gr. laga nr. 5/1998, um kosningar til sveitarstjórna, sem sýslumaðurinn á Húsavík skipaði hinn 28. maí 1998 til að úrskurða um framkomna kosningakæru A. Í málinu reyndi á það álitaefni hvort móttaka sveitarfélags (bæjarstjóra/oddvita) á tilkynningu um breytt lögheimili jafngilti því að tilkynningin hefði borist þjóðskrá Hagstofu Íslands í skilningi 2. mgr. 10. gr. laga nr. 5/1998.
Settur umboðsmaður rakti aðdraganda þess að lögfest var ákvæði þess efnis að óheimilt sé að breyta kjörskrá ef tilkynning um nýtt lögheimili hefur ekki borist þjóðskrá fyrir viðmiðunardag samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 15. gr. laga nr. 80/1987, um kosningar til Alþingis, og 5. gr. laga nr. 5/1998. Var það álit setts umboðsmanns að skýra bæri ákvæði 2. mgr. 10. gr. laga nr. 5/1998 þannig að kjörskrá verði ekki breytt eða hún leiðrétt ef tilkynning um flutning lögheimilis hefur ekki borist þjóðskránni sjálfri fyrir þann tíma sem greinir í 5. gr. laganna, þ.e. þremur vikum fyrir kjördag. Með hliðsjón af lögskýringargögnum taldi settur umboðsmaður að vilji Alþingis hafi staðið til þess að sett yrði skýrt viðmið varðandi það hvar maður skuli standa á kjörskrá og að skráning í íbúaskrá þjóðskrár þremur vikum fyrir kjördag ætti að ráða því.
Settur umboðsmaður benti á að í málinu lægi fyrir að tilkynning um flutning á lögheimili B frá Reykjavík til Raufarhafnar hefði verið móttekin af þjóðskrá til skráningar 5. maí 1998 en viðmiðunardagur samkvæmt 5. gr. laga nr. 5/1998 var þá liðinn. Var nafn B því ekki tekið inn á kjörskrárstofn sem þjóðskrá lét sveitarstjórn Raufarhafnarhrepps í té vegna kosninga til hennar sem fram fóru 23. maí 1998. Með hliðsjón af þessu og 2. mgr. 10. gr. var það niðurstaða setts umboðsmanns að sveitarstjórn Raufarhafnarhrepps hefði ekki verið heimilt að taka nafn B inn á kjörskrá þá sem gilti við sveitarstjórnarkosningar í sveitarfélaginu hinn tilgreinda dag. Þá taldi settur umboðsmaður að fullnægt hefði verið lagaskilyrði 94. gr. laga nr. 5/1998 fyrir ógildingu umræddra kosninga þar sem aðeins eitt atkvæði hefði skilið að þá tvo lista sem voru í framboði og þar sem einstaklingur sem neytti atkvæðisréttar þar hefði með réttu ekki átt að standa á kjörskrá í sveitarfélaginu. Því taldi settur umboðsmaður að lög hefðu staðið til þeirrar niðurstöðu að úrskurðaraðilum samkvæmt 93. gr. laga nr. 5/1998 hefði borið að ógilda umræddar kosningar til sveitarstjórnar í Raufarhafnarhreppi.
Niðurstaða setts umboðsmanns varð því sú að félagsmálaráðuneytinu hefði borið á grundvelli kæru A að ógilda kosningar til sveitarstjórnar í Raufarhafnarhreppi sem fram fóru 23. maí 1998. Beindi settur umboðsmaður þeim tilmælum til félagsmálaráðuneytisins að það tæki málið til skoðunar að nýju kæmi fram ósk um það frá A. Jafnframt vakti settur umboðsmaður athygli á því að dómstólar ættu endanlegt úrskurðarvald um ágreining af því tagi sem hér um ræddi enda væri hann ekki sérstaklega undanskilinn lögsögu þeirra samkvæmt lögum nr. 5/1998.