A og B kvörtuðu yfir meðferð og niðurstöðu úrskurðar félagsmálaráðuneytisins á kærumáli sem varðaði ágreining um gildi kjörskrár og kjörseðla í sveitarstjórnarkosningum í Austur-Eyjafjallahreppi hinn 23. maí 1998. Með úrskurði félagsmálaráðuneytisins var niðurstaða kjörnefndar sem sýslumaðurinn á Hvolsvelli skipaði í samræmi við fyrri málsl. 2. mgr. 93. gr. laga nr. 5/1998, um kosningar til sveitarstjórna, staðfest.
Settur umboðsmaður benti á að samkvæmt 94. gr. laga nr. 5/1998 leiddu gallar á kosningu því aðeins til ógildingar á henni að þeir hafi haft áhrif á úrslit kosninganna. Ágreiningur reis um það hvort tilteknir 13 einstaklingar hefðu með réttu átt að standa á kjörskrá í sveitarfélaginu. Höfðu þeir allir verið teknir inn á kjörskrárstofn sem þjóðskrá Hagstofu Íslands lét sveitarstjórninni í té. Upplýst var að einn þeirra hefði ekki neytt kosningaréttar síns og nægilega í ljós leitt að lögheimilisskráning hluta þeirra 12 einstaklinga sem eftir stæðu hafi ekki farið í bága við ákvæði laga nr. 21/1990, um lögheimili. Taldi hann því ekki ástæðu til athugasemda við efnislega niðurstöðu úrskurðar félagsmálaráðuneytisins.
Settur umboðsmaður rakti 93. gr. laga nr. 5/1998 og benti á að skv. ákvæðinu mætti í mesta lagi líða einn mánuður frá því að úrslitum kosninga var lýst og þar til stjórnsýslukæra vegna kosninganna hefði borist félagsmálaráðuneytinu. Af þessu leiddi jafnframt að niðurstaða kjörnefndar ætti að liggja fyrir um það bil tveimur vikum eftir að kosningakæra barst sýslumanni. Þá rakti settur umboðsmaður 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og benti á að þar sem félagsmálaráðuneytinu er ekki settur ákveðinn frestur í lögum til að leggja úrskurð á kosningamál sem þangað er skotið á grundvelli 93. gr. laga nr. 5/1998 gildi framangreind meginregla stjórnsýslulaga. Benti settur umboðsmaður á að í reglunni fælist m.a. áskilnaður um að aldrei megi verða ónauðsynlegur dráttur á afgreiðslu máls en um nánari afmörkun á því hvað talist getur eðlilegur afgreiðslutími fer eftir umfangi máls og atvikum hverju sinni. Þá þarf málsmeðferðartími að vera samrýmanlegur markmiði þess úrræðis sem er til umfjöllunar, sbr. dómur Hæstaréttar í máli nr. 420/1991, H1991:1632, og álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 2450/1998. Á hinn bóginn yrði jafnan að hafa í huga þá skyldu sem rannsóknarregla 10. gr. stjórnsýslulaga leggur stjórnvöldum á herðar. Þrátt fyrir að félagsmálaráðuneytinu væri ekki settur ákveðinn frestur til að úrskurða í málum um gildi kosninga til sveitarstjórna taldi settur umboðsmaður að því bæri að leggja sérstaka áherslu á að hraða afgreiðslu þeirra. Benti settur umboðsmaður á nauðsyn þessa í ljósi þess að heimildir nýkjörinnar sveitarstjórnar til að fara með stjórn sveitarfélagsins á meðan kosningakæra er til meðferðar í ráðuneytinu væru ekki sérstaklega takmarkaðar skv. lögum nr. 5/1998.
Þá benti settur umboðsmaður á að skv. gögnum málsins hefðu liðið 132 dagar frá því að kæra A og B hefði borist ráðuneytinu og þar til úrskurður var kveðinn upp. Taldi settur umboðsmaður að ekki yrði ályktað á annan veg en að ónauðsynlegur dráttur hafi orðið á afgreiðslu málsins í félagsmálaráðuneytinu þar sem að í fyrstu hafi dregist um of að ráðuneytið héldi málinu fram með nægilegum hraða og svo hafi það ekki fylgt málinu nægilega eftir. Þá féllst settur umboðsmaður ekki á að tafir á afgreiðslu málsins vegna sumarleyfis þess starfsmanns ráðuneytisins sem hafði með málið að gera gæti talist réttlætanlegar. Taldi settur umboðsmaður að yfirstjórn félagsmálaráðuneytisins hefði borið skylda til að grípa til viðeigandi ráðstafana í því skyni að áfram yrði unnið að málinu. Var þetta enn brýnna en ella í ljósi þess ónauðsynlega dráttar sem þegar var orðinn á afgreiðslu málsins skv. framansögðu.
Niðurstaða setts umboðsmanns varð því sú að meðferð félagsmálaráðuneytisins á kosningakæru þeirra A og B hefði ekki verið í samræmi við 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga. Taldi hann hins vegar ekki koma til álita að ógilda úrskurð ráðuneytisins af þessum sökum. Beindi hann þeim tilmælum til félagsmálaráðuneytisins að það gætti framvegis þeirra sjónarmiða um málshraða við afgreiðslu kosningamála, sbr. 3. mgr. 93. gr. laga nr. 5/1998, sem gerð höfðu verið grein fyrir í álitinu.