Málefni fatlaðs fólks. Sveitarfélög. Húsnæðismál. Stjórnvaldsákvörðun. Aðild. Stjórnsýslukæra.

(Mál nr. 9963/2019)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir niðurstöðu úrskurðarnefndar velferðarmála sem hafði vísað frá kæru hennar vegna ákvörðunar Reykjavíkurborgar um úthlutun í sértækt húsnæðisúrræði fyrir fatlað fólk. Umsókn A hafði verið samþykkt en hún verið á bið­lista eftir húsnæði í nokkur ár. A hafði síðan verið tilnefnd í tiltekið búsetuúrræði, eins og fleiri umsækjendur á biðlista, en því úthlutað til annars einstaklings og kærði hún þá ákvörðun til nefndarinnar. Í úrskurði nefndarinnar var einkum byggt á því að ekki lægi fyrir endanleg stjórnvaldsákvörðun í máli A sem væri kæranleg þar sem hún væri enn á biðlista eftir sértæku húsnæðisúrræði.  Ekki hefði verið tekin ákvörðun sem hefði leitt mál hennar til lykta. Athugun umboðsmanns beindist að framangreindri afstöðu nefndarinnar og þar með hvort frávísun nefndarinnar á kæru A hefði verið í samræmi við lög. Þar reyndi einkum á hvort A hefði átt aðild að því máli sem lauk með úthlutun á tilteknu húsnæðisúrræði og þar með þeirri ákvörðun sem hún kærði til nefndarinnar.

Umboðsmaður rakti ákvæði laga og reglna um húsnæðisúrræði fyrir fatlað fólk sem mæla fyrir um skyldur sem hvíla á sveitarfélögum á því sviði. Með hliðsjón af því að úthlutun um sértækt húsnæðisúrræði væri stjórnvaldsákvörðun  tók hann fram að við úrlausn um það hvort einstaklingur yrði talinn aðili tiltekins máls yrði að leggja heildstætt mat á hagsmuni og tengsl viðkomandi við úrlausn málsins. Umsækjendur sem kæmu til greina í tiltekið húsnæði, en yrðu ekki fyrir valinu, kynnu að hafa slíka hagsmuni af úrlausn þess að játa yrði þeim aðild að því. Í slíkum málum reyndi á þær lögbundnu skyldur sem hvíldu á sveitarfélögum um þjónustu við fatlað fólk og hvernig staðið væri að endanlegri afgreiðslu á umsókn þeirra um húsnæðisúrræði sem þegar hefði verið samþykkt. Að því virtu væri það í samræmi við þær skyldur sem hvíla á sveitarfélögum að tryggt væri að málsmeðferð í tengslum við slíkar úthlutanir væri í samræmi við lög.  Réttaröryggissjónarmið mæltu því með því að þeir sem hefðu fengið umsóknir sínar samþykktar, og gerð hefði verið tillaga um að koma skyldu til greina í tiltekið húsnæði, ættu aðild að slíkum málum. Þeir gætu þar með m.a. fengið upplýsingar um á hvaða sjónarmiðum mat og samanburður á umsækjendum hefði byggst, komið sjónarmiðum sínum á framfæri við undirbúning ákvörðunarinnar og látið reyna á niðurstöðuna hjá æðra settu stjórnvaldi. Ef eingöngu þeir sem fengju jákvæða niðurstöðu gætu fengið slíkar ákvarðanir endurskoðaðar væri ekki gætt nægjanlega að réttaröryggi annarra umsækjenda sem hefðu hagsmuni af því hvernig staðið væri að undirbúningi og töku slíkra ákvarðana.

Var það niðurstaða umboðsmanns að A hefði, eftir að gerð var tillaga um hana í tiltekið húsnæðisúrræði hjá Reykjavíkurborg, átt aðild að því stjórnsýslumáli sem lauk með stjórnvalds­ákvörðun um úthlutun þess á fundi velferðarsviðs borgarinnar til annars umsækjanda og þar með getað kært málið til úrskurðarnefndar velferðarmála. Var það því álit umboðsmanns að niðurstaða úrskurðarnefndarinnar í máli A, þar sem kæru hennar var vísað frá, hefði ekki verið í samræmi við lög. Beindi umboðsmaður því til nefndarinnar að hún tæki mál A til meðferðar að nýju, kæmi fram beiðni þess efnis frá henni, og leysti þá úr málinu í samræmi við þau sjónarmið sem rakin hefðu verið í álitinu. Jafn­framt beindi hann því til nefndarinnar að taka framvegis mið af þeim sjónarmiðum sem kæmu fram í álitinu. Umboðsmaður sendi einnig Reykjavíkurborg afrit af álitinu til upplýsinga með það í huga að tekin yrði afstaða til þess hvort tilefni væri til að taka almennt verklag sveitarfélagsins við úthlutun sértækra húsnæðis­úrræða til skoðunar.