Menntamál. Starfsnám lögreglu. Aðstoð einkaaðila. Heilbrigðisstarfsmenn. Rannsóknarreglan. Svör til umboðsmanns Alþingis.

(Mál nr. 10381/2020)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir því að umsókn hans um starfsnám lögreglu hefði verið hafnað á þeim grundvelli að hann uppfyllti ekki heilbrigðiskröfur sem gerðar væru til umsækjenda um námið. Í kvörtun A voru gerðar athugasemdir við málsmeðferð og umsögn trúnaðarlæknis, sem starfar hjá einkaaðila, sem byggt var á við mat á umsókn hans. Athugun setts umboðsmanns beindist að því hvort A hefði fengið fullnægjandi tækifæri til að koma að upplýsingum um heilsufar sitt áður en tekin var ákvörðun um að synja umsókn hans. Reyndi þar á hvort málsmeðferð mennta- og starfsþróunarseturs lögreglu, sem starfar innan embættis ríkislögreglustjóra, hefði verið í samræmi við rannsóknarreglu stjórnsýslulaga.

Settur umboðsmaður benti á að mennta- og starfsþróunarsetur lögreglu færi lögum samkvæmt með ákvörðunarvald um hvaða umsækjendur fengju að hefja starfsnám lögreglu. Setrið bæri því ábyrgð á  að slík mál væru sett í réttan farveg og viðeigandi reglum væri fylgt óháð því hvort það fengi aðstoð utanaðkomandi sérfræðings við undirbúning ákvörðunar. Í ljósi þess hefði erindi A til setursins, með athugasemdum um vinnubrögð trúnaðarlæknisins, gefið því fullt tilefni til að kanna nánar hvernig staðið hefði verið að meðferð málsins hjá lækninum, meðal annars hvort A hefði fengið að koma að fullnægjandi upplýsingum um heilsufar sitt áður en tekin hefði verið ákvörðun um að synja honum um inngöngu á grundvelli umsagnar læknisins. Slíkar upplýsingar hefðu getað haft grundvallarþýðingu við að meta hvort samþykkja eða synja ætti umsókn hans. Þar sem erindum hans hefði ekki verið svarað af hálfu læknisins hefði aftur á móti ekki reynt á hvaða þýðingu þær hefðu getað haft á niðurstöðu læknisins og þar með möguleika A á inngöngu í námið. 

Var það álit setts umboðsmanns að mennta- og starfsþróunarsetur lögreglu hefði ekki sýnt fram á að það hefði tryggt að fullnægjandi upplýsingar hefðu legið fyrir um heilsufar A við mat á umsókninni, í samræmi við rannsóknarregluna, áður en það synjaði umsókn hans með vísan til umsagnar trúnaðarlæknis. Ákvörðun setursins um að synja umsókn A hefði því ekki verið í samræmi við lög. Beindi hann því til setursins að það tæki mál A til meðferðar að nýju, kæmi fram beiðni þess efnis frá honum, og leysti þá úr málinu í samræmi við þau sjónarmið sem rakin hefðu verið í álitinu. Jafnframt beindi hann því til setursins að taka framvegis mið af þeim sjónarmiðum sem kæmu fram í álitinu. 

Þá beindi settur umboðsmaður því til mennta- og starfsþróunar­seturs lögreglu og ríkis­lögreglustjóra að meta hvort tilefni væri til að taka almennt verklag við meðferð umsókna um starfsnám hjá lögreglu til skoðunar með hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem rakin væru í álitinu. Jafnframt kom hann þeirri ábendingu á framfæri að ríkislögreglu­stjóri gerði viðeigandi ráðstafanir til að þau svör sem embætti hans sendi umboðsmanni Alþingis væru framvegis betur úr garði gerð.