Málefni fatlaðs fólks. Sveitarfélög. Ferðaþjónusta. Rannsóknarreglan. Meðalhófsreglan.

(Mál nr. 10054/2019)

Foreldrar A leituðu til umboðsmanns Alþingis og kvörtuðu yfir úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála þar sem staðfest var ákvörðun sveitarfélags um fyrirkomulag akstursþjónustu fyrir A sem býr við alvarlega fötlun. Í málinu lá fyrir að sveitarfélagið hafði greitt foreldrum A fyrir ferðaþjónustu í formi beingreiðslusamnings, sem þau sáu sjálf um. Foreldrarnir höfðu gert athugasemdir við þetta fyrirkomulag og óskað eftir að sveitarfélagið sæi um þjónustuna í samræmi við lög og þjónustuáætlun. Athugun setts umboðsmanns beindist að því hvort málsmeðferð nefndarinnar hefði verið í samræmi við lög, meðal annars í ljósi rannsóknarskyldu nefndarinnar, og þar með hvort fullnægjandi grundvöllur hefði verið lagður að niðurstöðu hennar í málinu.  

Settur umboðsmaður benti á að ákvarðanir sveitarfélaga um akstursþjónustu byggðu á lögbundnum grundvelli. Almennt væri gert ráð fyrir því að fatlað fólk ætti rétt á akstursþjónustu og að sveitarfélög sinni þjónustunni þótt þau hefðu svigrúm um hvernig þau útfærðu hana. Þegar tekin væri afstaða til þess hversu ríkar kröfur yrðu gerðar til rannsóknarskyldu úrskurðarnefndarinnar væri óhjákvæmilegt að líta til þess að foreldrum A hefði verið gert að útvega verulega fötluðu barni sínu, sem glímdi auk þess við veikindi, þjónustu sem sveitarfélaginu væri skylt að sinna á grundvelli laga. Í ljósi stöðu og veikinda A, sem og afstöðu foreldra sem leiða mætti af gögnum málsins, yrði að telja að ákvörðun um að veita þjónustuna í formi beingreiðslusamnings hefði verið til þess fallin að íþyngja þeim.

Settur umboðsmaður benti í þessu sambandi á að í kæru foreldra A hefði verið gerð athugasemd við fyrirkomulag akstursþjónustu við A í formi beingreiðslusamnings. Svör sveitarfélagsins hefðu aftur á móti verið á þann veg að ekki hafi verið vilji til staðar hjá foreldrunum að nýta þjónustu sveitarfélagsins með starfsmönnum sem það hefði metið hæfa. Úrskurðarnefndinni hefði því í ljósi þeirrar rannsóknarskyldu sem hvíldi á henni borið að kanna sérstaklega hvort önnur og vægari úrræði hefðu komið til greina í samræmi við meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar. Hvorki væri hins vegar séð af gögnum málsins né skýringum nefndarinnar til umboðsmanns að nefndin hefði kannað hvort þær forsendur sem sveitarfélagið byggði á stæðist að öllu leyti. Þá væri ekki séð á hvaða grundvelli nefndin byggði þá niðurstöðu að beingreiðslusamningurinn hefði verið í samræmi við reglur sveitarfélagsins enda hvorki mælt fyrir um slíkt fyrirkomulag í þeim lögum né reglum sem byggt hefði verið á. Jafnframt væri ekki séð hvaða þýðingu sjónarmið um sjálfstjórn sveitarfélaga, sem nefndin hafði vísað til, gætu haft þýðingu ef ákvörðunin ætti sér ekki stoð í reglum sem sveitarfélagið hefði sjálft sett.

Var það álit setts umboðsmanns að úrskurðarnefnd velferðarmála hefði ekki lagt fullnægjandi grundvöll að niðurstöðu sinni í máli A í samræmi við rannsóknarreglu stjórnsýslulaga. Ekki væri séð að nefndin hefði haft nægilegar forsendur til að fullyrða að sú akstursþjónusta sem sveitarfélagið hafi boðið upp á væri í samræmi við lög. Niðurstaða hans væri því sú að úrskurðurinn hefði ekki verið í samræmi við lög. Beindi hann því til nefndarinnar að taka mál A til meðferðar að nýju kæmi fram beiðni þess efnis og leysti þá úr málinu í samræmi við þau sjónarmið sem rakin væru í álitinu og tæki framvegis mið af þeim.