Opinberir starfsmenn. Sveitarfélög. Ráðningar í opinber störf. Sérstakt hæfi.

(Mál nr. 10428/2020)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir ráðningu sveitarfélags í starf aðalbókara en A var annar tveggja umsækjenda um starfið. Í kvörtuninni var meðal annars gerð athugasemd við aðkomu sviðsstjóra fjármála- og stjórnsýslusviðs sveitarfélagsins að ráðningarmálinu sem A taldi vanhæfan vegna tengsla við þann umsækjanda sem ráðinn var. Athugun umboðsmanns beindist að því hver hafi verið aðkoma sviðsstjórans að málinu og hvort tengsl hans við umsækjandann sem var ráðinn hafi verið þess eðlis að geta valdið vanhæfi hans til þátttöku í undirbúningi eða afgreiðslu málsins.

Við meðferð málsins upplýsti sveitarfélagið að bæjarstjóri hefði tekið ákvörðun um ráðninguna en sviðsstjórinn hefði setið viðtöl sem ráðgjafi ráðningarfyrirtækis tók við umsækjendur og spurt spurninga er lutu að sérþekkingu á starfinu. Hann hefði hins vegar ekki komið að mati og samanburði umsækjenda. Þá var upplýst að eiginmaður sviðsstjórans og umsækjandinn sem var ráðinn væru systkinabörn og að sviðsstjórinn hefði verið yfirmaður í fyrra starfi umsækjandans hjá sveitarfélaginu.  

Settur umboðsmaður rakti ákvæði sveitarstjórnarlaga og stjórnsýslulaga um sérstakt hæfi og málsmeðferð þegar vafi leikur á hæfi starfsmanns til meðferðar þess. Í því sambandi benti hann á að þau fjölskyldutengsl sem um ræddi milli sviðsstjórans og þess umsækjanda sem ráðinn var gætu ekki ein og sér leitt til vanhæfis sviðsstjórans á grundvelli sveitarstjórnarlaga. Aftur á móti reyndi á hvort tengslin hefðu verið þess eðlis að almennt mætti ætla að viljaafstaða sviðsstjórans mótaðist að einhverju leyti þar af. Ekki væri framhjá því litið að sviðsstjórinn hafi vakið athygli á því að best færi á að hann kæmi ekki að ráðningarferlinu og að mat bæjarstjóra hafi einnig verið að svo væri. Þá hafi af hálfu sveitarfélagsins verið talið mikilvægt að fá utanaðkomandi aðila til að fara með málið til að gæta hlutleysis og leitað til ráðningarfyrirtækis í kjölfarið vegna „vanhæfis“ sviðsstjórans. Hvað sem liði þeim skýringum sveitarfélagsins að um óvarkára notkun orðsins „vanhæfi“ í tölvupóstum hafi verið að ræða, og bæjarstjóri hafi í reynd ekki talið sviðsstjórann vanhæfan, yrði ekki dregin fjöður yfir það að þær skýringar væru hvorki í samræmi við þær ákvarðanir sem teknar voru þegar atvik máls áttu sér stað né þá afstöðu sem birtist í gögnum málsins.

Niðurstaða setts umboðsmanns var að með réttu hafi mátt ætla að viljaafstaða sviðsstjórans mótaðist að einhverju leyti af tengslum hans við hinn umsækjandann um starfið. Sviðsstjórinn hefði því ekki mátt taka þátt í undirbúningi, meðferð eða úrlausn ráðningarmálsins heldur hefði bæjarstjóra borið að fela öðrum starfsmanni að koma að ráðningarferlinu og sitja viðtöl með ráðningarfyrirtækinu. Sveitarfélagið hefði því ekki sýnt fram á að meðferð málsins hefði að þessu leyti verið í samræmi við lög. Þá benti umboðsmaður á að A hefði ranglega verið leiðbeint um að hægt væri að kæra ákvörðun um synjun á gögnum ráðningarmálsins til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins.

Settur umboðsmaður beindi þeim tilmælum til sveitarfélagsins að leita leiða til að rétta hlut A og að taka framvegis mið af þeim sjónarmiðum sem kæmu fram í álitinu. Að öðru leyti yrði það að vera verkefni dómstóla að meta réttaráhrif framangreinds annmarka á meðferð sveitarfélagsins á málinu ef A kysi að fara með málið þá leið.