Opinberir starfsmenn. Ríkislögreglustjóri. Yfirstjórnunar- og eftirlitsheimildir ráðherra. Samskipti stjórnvalda við borgarana.

(Mál nr. 9683/2018 og 9694/2018)

A og B leituðu til umboðmanns Alþingis og kvörtuðu yfir framgöngu ríkislögreglustjóra í tilefni af bréfum ríkislögreglustjóra til þeirra. Bréfin voru rituð á bréfsefni embættis ríkislögreglustjóra og undirrituð af ríkislögreglustjóra ásamt tveimur fyrrverandi starfsmönnum embættisins. Eftir samskipti umboðsmanns við dómsmálaráðuneytið tók ráðuneytið samskiptin til athugunar á grundvelli yfirstjórnunar- og eftirlitsheimilda ráðherra. Niðurstaða ráðuneytisins var að efni og framsetning bréfanna væri ámælisverð. Þrátt fyrir það taldi ráðuneytið ekki ástæðu til að beita heimildum laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins gagnvart ríkislögreglustjóra. Það lagði þó til að ríkislögreglustjóri kæmi leiðréttingum á framfæri við A og B.

Af þessu tilefni ritaði ríkislögreglustjóri bréf til A og B. Sem fyrr notaði ríkislögreglustjóri bréfsefni embættisins, auk þess sem þáverandi starfsmaður þess undirritaði bréfin ásamt honum. Dómsmálaráðuneytið lýsti þeirri afstöðu við umboðsmann að viðbrögð ríkislögreglustjóra hefðu verið innan þess svigrúms sem hann hefði til að ákveða hvernig hann orðaði þær leiðréttingar sem honum hefði verið falið að senda. Athugun setts umboðsmanns Alþingis beindist að því hvort dómsmálaráðuneytið hefði brugðist við með fullnægjandi hætti gagnvart þessari framgöngu ríkislögreglustjóra á grundvelli yfirstjórnunar- og eftirlitsheimilda ráðherra.

Settur umboðsmaður benti á að lagareglur um ábyrgð og áhrif tjáningar væru í verulegum atriðum ólíkar eftir því hvort tjáning væri sett fram á vegum embættismanns persónulega eða í nafni þeirrar stofnunar sem hann veitti forstöðu. Allar athafnir stjórnvalda og samskipti þeirra við borgarana yrðu að byggjast á lögum og málefnalegum sjónarmiðum. Opinberum starfsmönnum væri því óheimilt að leggja persónuleg sjónarmið til grundvallar þegar þeir tjáðu sig fyrir hönd eða í nafni stjórnvalds í samskiptum við borgarana. Af því leiddi að embættismenn mættu ekki nýta aðstöðu þess stjórnvalds sem þeir störfuðu hjá eða veittu forstöðu til að gæta eigin hagsmuna gagnvart einstaklingum eða lögaðilum. Kröfur til stjórnvalda að þessu leyti væru ríkari eftir því sem þau færu með auknar valdheimildir til afskipta af borgurunum. Þar nyti lögreglan sérstöðu, eins og endurspeglaðist í ákvæðum lögreglulaga. Þá bæri ríkislögreglustjóri enn ríkari hlutlægnisskyldur en lögreglustjórar og aðrir handhafar lögregluvalds í krafti stöðu sinnar.

Settur umboðsmaður taldi að dómsmálaráðuneytinu hefði borið að líta til þeirra skyldna sem hvíla á ríkislögreglustjóra þegar það tók afstöðu til þeirrar háttsemi sem athugasemdir A og B beindust að og hvernig rétt væri að bregðast við af því tilefni. Hann taldi því að ríkislögreglustjóri hefði farið út fyrir það svigrúm sem hann hefði um hvernig hann orðaði bréfin til A og B. Þá tók settur umboðsmaður ekki undir sjónarmið ráðuneytisins um að eðlilegt hefði verið að ríkislögreglustjóri sendi leiðréttingabréf sín í nafni embættisins þar sem fyrri bréf hefðu verið send með sama hætti. Hann benti á að ráðuneytið hefði þegar fundið að því að ríkislögreglustjóri og fyrrverandi starfsmenn hefðu gætt persónulegra hagsmuna með því að rita bréf í nafni embættisins og á bréfsefni þess. Yrði því ekki annað séð en að þáverandi ríkislögreglustjóri hefði bæði persónulega og í nafni embættisins haldið uppteknum hætti við framgöngu sem hefði verið í ósamræmi við þær lögbundnu skyldur sem hvíldu á embætti ríkislögreglustjóra samkvæmt lögreglulögum og grundvallarreglum stjórnsýsluréttarins. Taldi hann að dómsmálaráðuneytið hafi ekki getað látið hjá líða að gera ráðstafanir til að koma þessum starfsháttum ríkislögreglustjóra í lögmætt horf.

Settur umboðsmaður fjallaði jafnframt um þau sjónarmið sem dómsmálaráðuneytið hafði byggt ákvörðun sína á um að áminna ekki ríkislögreglustjóra. Í ljósi þeirra ríku krafna sem gerðar væru til embættis ríkislögreglustjóra sem æðsta handhafa lögregluvalds samkvæmt lögreglulögum yrði jafnframt að gera ríkar kröfur til framgöngu ríkislögreglustjóra. Áminning væri úrræði fyrir handhafa veitingarvalds til þess að upplýsa embættismann um atriði og starfshætti sem hann teldi að embættismaðurinn þyrfti að bæta úr. Að því leyti gæti áminning verið liður í að ráðherra beitti stjórnunar- og eftirlitsheimildum sínum gagnvart forstöðumanni til að koma starfsemi undirstofnunar í lögmætt horf. Ákvörðun um að áminna embættismann og forstöðumann opinberrar stofnunar vegna tiltekinnar framgöngu gæfi starfsmönnum og almenningi jafnframt til kynna hvaða augum æðra stjórnvald liti á framgöngu embættismanns í ljósi reglna og viðmiðana sem bæri að fylgja í opinberri starfsemi.

Settur umboðsmaður Alþingis beindi þeim tilmælum til dómsmálaráðuneytisins að taka framvegis mið af þeim sjónarmiðum sem væri lýst í álitinu. Í ljósi þess hvernig til tókst með að ríkislögreglustjóri færi að ábendingum ráðuneytisins um að embættið kæmi á framfæri leiðréttingum við þá A og B í tilefni af fyrri bréfum embættisins til þeirra taldi settur umboðsmaður enn fremur rétt að beina þeim tilmælum til ráðuneytisins að það leitaði leiða til að rétta hlut þeirra hvað þennan þátt málsins varðaði.