Sveitarfélög. Meðferð eigendavalds og eftirlit sveitarfélaga með félögum í eigu þeirra. Sjálfstjórn sveitarfélaga. Meinbugir. Frumkvæðisathugun.

(Mál nr. 5117/2007)

Umboðsmaður Alþingis hefur lokið frumkvæðisathugun á meðferð eigendavalds og eftirliti sveitarfélaga með félögum í eigu þeirra. Tildrög þess að umboðsmaður ákvað að taka þennan þátt í starfsemi sveitarfélaganna til almennrar athugunar voru að honum höfðu borist ábendingar og kvartanir sem lutu að þátttöku þeirra í atvinnurekstri. Efni þessara ábendinga og kvartana urðu settum umboðsmanni tilefni til að fjalla almennt um álitaefni sem vöknuðu við athugunina. Beindi hann athygli sinni einkum að stöðu og möguleikum sveitarstjórna til að hafa eftirlit með eignum og þeirri starfsemi sem þau hefðu komið fyrir hjá einkaréttarlegum félögum.

Settur umboðsmaður fjallaði um stöðu sveitarfélaganna og vald sveitarstjórna til að taka ákvarðanir um hagsmuni sveitarfélaganna, þar á meðal til að taka þátt í atvinnurekstri ef það styddist við lagaheimild eða samrýmdist að öðru leyti heimild sveitarfélaga til að taka að sér ólögbundin verkefni. Benti hann á að ákvörðun sveitarstjórnar um rekstrarform kynni að hafa áhrif á hvaða reglur giltu um verkefnið, en sveitarfélög hefðu í ljósi stöðu sinnar nokkurt svigrúm til að skipuleggja starfsemi sína. Það skipti hins vegar máli að þegar sveitarfélög ákveða að ganga til samstarfs við einkaaðila um að sinna ákveðnum verkefnum, færa þau í einkaréttarleg félög eða að taka þátt í atvinnurekstri væru þau að ráðstafa opinberum hagsmunum í formi fjármuna og eigna sveitarfélaganna. Því hefði verið gengið út frá að ákveðnar hömlur væru á þátttöku sveitarfélaga í atvinnurekstri þegar lög gerðu ekki ráð fyrir slíkri þátttöku.

Settur umboðsmaður benti á að þær almennu reglur sem giltu um sveitarstjórnarstigið væru því marki brenndar að þær tækju einkum mið af hefðbundnum stjórnsýsluverkefnum sveitarfélaga en ekki atvinnurekstri á einkamarkaði eða þátttöku í einkaréttarlegum félögum að öðru leyti. Þá  fjallaði hann um hvernig þessar almennu reglur horfðu við atvinnurekstri sveitarfélaga og samstarfi þeirra við einkaréttarleg félög. Vísaði hann til þess að um ýmis veigamikil atriði um atvinnurekstur sveitarfélaga væri ekki fjallað í gildandi reglum. Þær sérstöku reglur og viðmið sem giltu um meðferð sveitarfélaga á fjármunum og eignum virtust því ekki setja sveitarfélögum mörk um hvernig þau kæmu að stofnun og rekstri einkaréttarlegra félaga, jafnvel þótt verulegir opinberir hagsmunir væru í húfi.

Í ljósi þeirra mála sem umboðsmaður Alþingis hefði haft til skoðunar var það álit setts umboðsmanns að tilefni væri til að setja skýrari og sérgreindari lagareglur um framangreind atriði. Með tilliti til þess hlutverks sem umboðsmanni væri falið lögum samkvæmt lét settur umboðsmaður í ljós þá afstöðu sína að mikilvægt væri að í lögum væri að finna þær meginreglur sem handhafar opinbers valds ættu að fylgja, meðal annars í samskiptum við borgarana og um hvernig opinberum verðmætum væri ráðstafað. Hann vakti því athygli samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra á álitaefnum sem hefði verið vikið að í álitinu með það fyrir augum að metið yrði hvort þörf væri á lagabreytingum til að bæta þar úr.