Mannanöfn. Synjun eiginnafns. Lögskýring. Mannréttindi.

(Mál nr. 10110/2019)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir úrskurði mannanafnanefndar. Þar hafnaði nefndin beiðni um að eiginnafnið Kona yrði samþykkt á mannanafnaskrá á þeirri forsendu að það bryti í bág við íslenskt málkerfi í skilningi 5. gr. laga um mannanöfn. Niðurstaða nefndarinnar og skýringar byggðust einkum á því að reglur íslensks máls væru ekki bundnar við formlega þætti heldur væri merkingarkerfi jafnframt hluti af íslensku málkerfi í skilningi laganna. Nöfn leidd af samnöfnum, sem væru hluti af merkingarflokki sem ekki væri hefð fyrir að nota sem mannanöfn, brytu í bág við íslenskt málkerfi. Samnöfn sem vísuðu almennt til fólks af ákveðnu kyni og/eða aldri, án upphafinna eða skáldlegra merkingartilbrigða, eins og Kona, tilheyrðu merkingarflokki sem ekki væri hefð fyrir að nota sem mannanöfn og röskuðu því merkingarkerfi málsins. Athugun umboðsmanns beindist að þessari afstöðu nefndarinnar og þá hvort úrskurður hennar og þær forsendur byggt var á við beitingu ákvæðisins hefðu verið í samræmi við lög.

Umboðsmaður benti á að réttur manns til auðkennis, sjálfsímyndar og nafns nyti verndar 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar eins og það yrði túlkað með hliðsjón af 1. mgr. 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þótt ríki hefðu svigrúm til mats um hvernig takmörkunum, sem hefðu það að markmiði að vernda tungumálið og hefðir um nafngiftir, væri hátttað yrðu þær þó alltaf að helgast af eðlilegu jafnvægi milli þeirra opinberra hagsmuna sem leitast væri við að tryggja og hagsmuna manns af því að velja sér nafn.

Þá rakti umboðsmaður ákvæði laga um mannanöfn, forsögu þeirra og lögskýringargögn. Benti hann á að nöfn sem ekki samræmdust íslensku málkerfi gætu allt að einu talist hafa unnið sér hefð í íslensku máli og fullnægðu þá áskilnaði laganna. Þá ályktun mætti auk þess draga af lögum og lögskýringargögnum að með „íslensku málkerfi“ í skilningi laga um mannanöfn væri fyrst og fremst átt við samsafn þeirra reglna sem hefðu unnið sér hefð í íslensku máli og þá einkum þær sem lytu að formlegum þáttum, eins og beygingum, hljóðkerfi og orðmyndun. Leggja yrði til grundvallar að þegar um væri að ræða nöfn sem á annað borð samræmdust íslensku málkerfi í þessum skilningi væri hvorki gert ráð fyrir þau að þau lægju þegar fyrir með tæmandi hætti né að til framtíðar kæmu einungis til greina nöfn sem þegar hefðu unnið sér hefð þannig að nýjungar að þessu leyti væru útilokaðar.

Umboðsmaður benti á að það væri viðurkennt af mannanafnanefnd að ýmis vafatilvik eða jafnvel nokkuð skýrar undantekningar væru um að samnöfn, sem vísuðu til kyns fólks, væru notuð sem mannanöfn í hefðbundnu máli. Var það niðurstaða hans að þau sjónarmið sem mannanafnanefnd byggði á í málinu yrðu ekki leidd með nægilega skýrum hætti af 5. gr. laga um mannanöfn, samhengi ákvæðisins við aðrar reglur laganna eða forsögu og lögskýringargögn. Þá yrði ekki ráðið að nefndin hafi við skýringu laganna tekið nægilegt mið af því hagsmunamati sem leiddi af ákvæðum stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu og þannig tekið nægt tillit til fyrrgreindra hagsmuna borgarans af því að fá að ráða nafni sínu og auðkenni sjálfur. Úrskurðurinn hefði því ekki verið í samræmi við lög. Beindi hann því til nefndarinnar að taka málið aftur til meðferðar kæmi fram beiðni þess efnis og leysa þá úr því í samræmi við sjónarmið í álitinu sem og hafa þau framvegis í huga.