Íslandspóstur ohf. leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir ákvörðunum úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála um „málskostnað“ samkvæmt sjö úrskurðum hennar. Kvörtunin byggðist einkum á því að félagið hefði ekki fengið fullnægjandi upplýsingar frá nefndinni um kostnaðinn sem fjárhæð „málskostnaðarins“ hefði verið ætlað að standa straum af. Þá hefðu ekki verið uppfyllt skilyrði til að gera félaginu að greiða „málskostnaðinn“ auk þess sem fjárhæð hans hefði verið fram úr hófi með tilliti til eðlis og umfangs málanna.
Umboðsmaður benti á að í gjaldtökuheimild úrskurðarnefndarinnar væri bæði kveðið á um „gjald vegna málskots“ og „málskostnað“. Þrátt fyrir það taldi hann að leggja yrði til grundvallar, m.a. með hliðsjón af orðalagi ákvæðisins og lögskýringargögnum, að með báðum hugtökum væri vísað til sama gjaldsins, þ.e. gjalds til að standa straum af kostnaði ríkisins vegna málskots til nefndarinnar og málsmeðferðar hennar. Þá rakti umboðsmaður að samkvæmt reglugerð um nefndina skyldi hún ekki taka kæru til meðferðar nema málskotsgjald fylgdi henni. Í gjaldtökuheimild laganna væri hins vegar beinlínis mælt fyrir um að nefndin kvæði á um fjárhæð og skiptingu gjalds í úrskurðarorðum sínum. Umboðsmaður taldi því að reglugerðarákvæðið og framkvæmd nefndarinnar hefði ekki fullnægjandi lagastoð.
Umboðsmaður fjallaði jafnframt um það hvort heimilt hefði verið að taka gjald til að standa straum af kostnaði vegna vinnu fulltrúa á lögmannsstofu formanns nefndarinnar og starfsaðstöðu hennar. Þótt staða fulltrúanna hefði verið nokkuð á reiki samkvæmt gögnum málsins og skýringum stjórnvalda taldi umboðsmaður ekki efni til að slá því föstu að þeir hefðu verið utan „starfsliðs“ nefndarinnar. Það var því niðurstaða hans, að teknu tilliti til þeirra verka sem þeir hefðu sinnt, að vinna þeirra rúmaðist innan gjaldtökuheimildarinnar. Um gjald vegna starfsaðstöðu nefndarinnar benti umboðsmaður á að stjórnvöld hefðu ekki sýnt fram á að kostnaður vegna hennar byggðist á viðeigandi útreikningum eða áætlunum. Því væri óhjákvæmilegt að líta svo á að ekki hefði verið lagður fullnægjandi lagalegur grundvöllur að gjaldtökunni að þessu leyti. Enn fremur taldi umboðsmaður að í ljósi stjórnsýsluframkvæmdar og málsatvika hefði ekki verið sýnt fram á að fullnægt hefði verið skilyrðum að lögum til þess að ákveða að Íslandspóstur ohf. skyldi greiða kostnað ríkissjóðs af úrskurðarnefndinni vegna málanna. Þá gerði umboðsmaður athugasemdir við málshraða og afgreiðslu nefndarinnar á beiðni Íslandspósts ohf. um aðgang að gögnum um „málskostnaðinn“.
Þá benti umboðsmaður á að í gjaldtökuheimild nefndarinnar í lögum væri hugtakið „málskostnaður“ ekki notað í hefðbundnum skilningi í íslensku lagamáli. Minnti hann á nauðsyn þess að að lög væru skýr og réttaráhrif fyrirsjáanleg. Ekki yrði séð að hugtakið „málskostnaður“ tæki með fullnægjandi hætti mið af efni og markmiði gjaldtökuheimildarinnar að öðru leyti. Taldi hann því rétt að vekja athygli Alþingis og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra á orðalagi umræddra laga og stjórnvaldsfyrirmæla til að hugað yrði að því hvort og þá hvaða lagabreytinga væri þörf þannig að hugtakanotkun endurspeglaði með skýrari hætti inntak gjaldtökunnar. Að lokum fjallaði umboðsmaður um eftirlit ráðuneytisins með kostnaði vegna nefndarinnar. Í ljósi álitaefna málsins taldi hann atvik máls bera þess merki að ástæða kynni að vera til að huga betur að framangreindu hlutverki þess.
Umboðsmaður beindi því til úrskurðarnefndarinnar að taka mál Íslandspósts ohf. til meðferðar að nýju, kæmi fram beiðni þess efnis frá félaginu, og leysa þá úr þeim í samræmi við þau sjónarmið sem hefðu verið rakin í álitinu. Jafnframt beindi hann því til nefndarinnar og ráðuneytisins að taka afstöðu til þess hvort gjald vegna starfsaðstöðu hennar hefðu verið oftekin og að það væri þá endurgreitt þeim, sem það ætti við um, í samræmi við lagafyrirmæli þar um. Þá beindi umboðsmaður því til ráðuneytisins að taka almenna framkvæmd úrskurðarnefndarinnar vegna ákvarðana um „málskostnað“ til skoðunar með hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem hefðu verið rakin í álitinu og að stjórnvöldin tækju framvegis mið af þeim sjónarmiðum sem kæmu fram í álitinu.
Umboðsmaður lauk málinu með áliti 27. ágúst 2021.