Umboðsmaður Alþingis hefur lokið frumkvæðisathugun viðvíkjandi framkvæmd og grundvelli vistunar sjúklinga á svokölluðum öryggisgangi réttargeðdeildar á Kleppi á Landspítala. Tildrög athugunarinnar var m.a. umfjöllun í fjölmiðlum um vistun og aðbúnað sjúklinga á téðum öryggisgangi og eftirfylgni á spítalanum í júní 2021 vegna skýrslu embættisins frá árinu 2019 um þrjár lokaðar geðdeildir hans.
Athugun umboðsmanns að þessu sinni beindist að því að kanna nánar í hverju umrætt úrræði, eins og því var lýst í gögnum Landspítala, fælist og taka afstöðu til þess hvort því væri búinn fullnægjandi grundvöllur og umgjörð í lögum, einkum í ljósi lagaáskilnaðarreglna stjórnarskrárinnar. Í skýringum spítalans kom m.a. fram að vistun á öryggisgangi fæli í sér að sjúklingur væri aðskilinn frá öðrum sjúklingum og undir viðvarandi eftirliti starfsmanna auk þess sem ýmsar aðrar takmarkanir leiddu af vistuninni, s.s. takmörkun á samskiptum, útiveru o.fl. Vistun á öryggisgangi kæmi til í þeim tilvikum þegar tryggja þyrfti öryggi sjúklingsins sjálfs eða annarra, t.d. vegna ofbeldishegðunar, sjálfsvígshættu eða fíkniefnaneyslu og væri aflétt um leið og þætti öruggt. Í gögnum frá spítalanum kom einnig fram að sjúklingar dveldu þar í mislangan tíma og með mismiklum takmörkunum miðað við ástand þeirra hverju sinni.
Umboðsmaður taldi ljóst af skýringum Landspítala að í vistun á öryggisgangi fælist öllu jöfnu íþyngjandi ráðstöfun fyrir sjúkling umfram þær almennu takmarkanir á frelsi sem óhjákvæmilega leiddu af dómi um vistun á „viðeigandi hæli“ samkvæmt ákvæðum almennra hegningarlaga. Dómsákvæði um „vistun á viðeigandi hæli eða stofnun“ eða ákvörðun stjórnvalda um vistun tiltekins manns á réttargeðdeild gæti því almennt ekki, eitt og sér, talist fullnægjandi lagalegur grundvöllur fyrir ákvörðun um vistun á öryggisgangi um lengra skeið, ekki síst ef um væri að ræða einangrun sjúklings. Slík vistun kynni því undir vissum kringumstæðum að jafngilda sjálfstæðri frelsissviptingu umfram það sem leiddi af dómi. Hvað sem því liði væri þó um að ræða inngrip í stjórnarskrárvarinn rétt sjúklings til friðhelgi einkalífs. Var þá horft til þess að með vistun á öryggisgangi væri sjúklingur alla jafnan aðskilinn frá öðrum sjúklingum og samneyti hans og umgengni við aðrar manneskjur og þátttaka félagslífi takmörkuð. Þá væri hann undir stöðugu og viðvarandi eftirliti starfsmanna, eins eða fleiri, og nyti því í reynd lítils af þeim takmörkuðu einkalífsréttindum sem hann myndi að öðrum kosti njóta á réttargeðdeild.
Umboðsmaður áréttaði fyrri ábendingar á þá leið á að hvorki í hegningarlögum né öðrum lögum væri kveðið á um heimildir til að beita dómþola frekari þvingun eða inngripi, svo sem með vistun á öryggisgangi, við þær aðstæður að þeir hefðu verið dæmdir til vistunar á „viðeigandi hæli“ samkvæmt ákvæðum almennra hegningarlaga. Sem fyrr væri það því álit umboðsmanns að ekki yrði séð að löggjafinn hefði, að svo stöddu, veitt heimild til að beita téðu úrræði, eins og því var lýst í ákveðnum tilvikum af hálfu Landspítala. Umboðsmaður taldi því rétt að árétta fyrri tilmæli sín til heilbrigðisráðherra og dómsmálaráðherra sem og Alþingis um að tekin yrði afstaða til þess hvort og þá með hvaða hætti rétt sé að bregðast við skorti á lagaheimildum vegna framangreindra starfshátta.
Umboðsmaður benti einnig á að téður skortur á lagareglum leiddi til þess að í lögum nyti ekki við ákvæða um þá nánari málsmeðferð sem bæri að viðhafa við ákvörðun og framkvæmd vistunar á öryggisgangi, svo sem um skilyrði vistunar og endurskoðun ákvörðunar. Slíkt kynni að leiða til þess að vistun á öryggisgangi yrði lengri en efni stæðu til auk þess sem líkur á misbeitingu úrræðisins yrðu óhjákvæmilega meiri en ella. Umboðsmaður taldi því rétt að vekja athygli heilbrigðisráðherra, dómsmálaráðherra og Alþingis á þessum atriðum með það fyrir augum að tekin yrði afstaða til þess hvort tilefni væri til að búa þessum málum tryggari og vandaðri grundvöll í lögum en nú væri gert.
Að lokum taldi umboðsmaður að leggja yrði til grundvallar að ákvörðun um að vista sjúkling á öryggisgangi í lengri tíma, og með aðskilnaði frá öðrum sjúklingum, fæli alla jafna í sér stjórnvaldsákvörðun og því bæri að fylgja reglum þeirra laga við undirbúning og töku ákvörðunar um beitingu úrræðisins. Benti umboðsmaður á að ganga yrði út frá því að stjórnvaldsákvarðanir sem teknar væru á Landspítala væru almennt kæranlegar til heilbrigðisráðuneytisins sem færi með yfirstjórn mála er varða heilbrigðisþjónustu, þ. á m. Landspítala. Taldi hann því rétt að beina því til Landspítala að huga að því, án tillits til hugsanlegra breytinga á lögum, hvernig staðið væri að leiðbeiningum til sjúklinga þegar kæmi að kvörtunar- og kæruleiðum vegna ákvörðunar um vistun á öryggisgangi.
Umboðsmaður lauk málinu með áliti 15. júní 2022.