A, B og C leituðu til umboðsmanns Alþingis með kvörtun sem beindist að dómsmálaráðuneytinu og laut að tveimur úrskurðum þess, annars vegar vegna ákvörðunar yfirlögráðanda í tilefni af kröfu þeirra um skipan nýs lögráðamanns fyrir móður þeirra og hins vegar vegna beiðni um að yfirlögráðandi tæki aftur upp mál þar sem hann hafði samþykkt tilteknar ráðstafanir lögráðamanns hennar. Báðir úrskurðir ráðuneytisins byggðust á því að þau ættu ekki aðild að málunum. Athugun umboðsmanns var afmörkuð við hvort þessi afstaða ráðuneytisins, og þar með úrskurðir þess, hefðu verið í samræmi við lög.
Þrátt fyrir stöðu A, B og C sem skylduerfingja móður sinnar, svo og barna sem frumkvæði höfðu átt að fjárræðissviptingu hennar, taldi umboðsmaður sig, að virtum ákvæðum lögræðislaga, ekki hafa forsendur til að gera athugasemdir við þá efnislegu afstöðu ráðuneytisins að játa þeim ekki réttarstöðu sem aðilum við meðferð málanna. Í því sambandi benti hann jafnframt á að ráðherra gæti á grundvelli yfirstjórnar- og eftirlitsheimilda sinna tekið mál til skoðunar þótt lagaskilyrði brysti fyrir því að ráðherra fjallaði um mál á grundvelli stjórnsýslukæru, svo sem var gert í tilefni af kærum A, B og C.
Umboðsmaður lauk athugun sinni á málinu en það varð honum þó tilefni til að koma á framfæri við ráðuneytið ábendingu um að taka til athugunar hvort rétt kynni að vera að skýra nánar stöðu náinna aðstandenda með tilliti til aðkomu þeirra að málefnum lögræðissviptra, svo og persónulegan rétt lögræðissvipts manns til kæru. Hann tók fram að í því fælist ekki afstaða til þess með hvaða hætti þeim málum ætti að skipa heldur ábending um mikilvægi þess að lagareglur að þessu lútandi væru skýrar.
Umboðsmaður lauk málinu með áliti án tilmæla 5. september 2022.