Lögreglu- og sakamál. Frávísun kærumáls. Rafræn meðferð stjórnsýslumáls. Stjórnvaldsákvörðun. Framsending máls. Upphaf kærufrests. Birting ákvörðunar. Rannsóknarreglan. Leiðbeiningar um heimild til að fá rökstuðning. Aðgangur að gögnum og upplýsingum.

(Mál nr. 11551/2022)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir afgreiðslu ríkissaksóknara á erindi sem laut að ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um að vísa frá kæru um brot gegn honum. Kæran var upphaflega send til embættis ríkissaksóknara með ábyrgðarbréfi en hún var framsend lögreglustjóra án þess að A væri tilkynnt um það. Ákvörðun lögreglustjóra um frávísun kærunnar var send í pósthólf A á vefnum Ísland.is en A hafði ekki aðgang að vefnum. Tilraunir A til að fá aðgang að ákvörðuninni eftir öðrum leiðum báru ekki árangur og að endingu var erindi hans, sem sett var fram í þessu skyni, tekið til meðferðar hjá ríkissaksóknara sem stjórnsýslukæra. Þeirri kæru var vísað frá á þeim grundvelli að hún hefði borist að liðnum kærufresti.

Umboðsmaður taldi ljóst að erindi A til ríkissaksóknara, í kjölfar þess að hann fékk vitneskju um ákvörðun lögreglustjóra um að vísa kæru hans frá, yrði ekki skilið á aðra leið en að í því fælust fyrst og fremst athugasemdir við að hann hefði enn ekki fengið ákvörðunina í hendur og beiðni um aðgang að henni. Með því að taka erindið til meðferðar sem stjórnsýslukæru hefði málið verið afgreitt á röngum lagalegum grundvelli. Í tilefni af athugasemdum ríkissaksóknara í skýringum til umboðsmanns um að erindi A til embættisins hefðu verið illskiljanleg tók umboðsmaður fram að það hefði átt að gefa tilefni til að óska eftir upplýsingum frá honum í samræmi við rannsóknar- og leiðbeiningarskyldu sem hvílir á embættinu.

Umboðsmaður tók jafnframt til skoðunar hvort niðurstaða ríkissaksóknara á þá leið að kærufrestur hefði verið liðinn samrýmdist lögum. Umboðsmaður lagði til grundvallar að ákvörðun sem beri að tilkynna skriflega geti öðlast réttaráhrif og þar með markað upphaf kærufrests þegar hún væri tilkynnt aðila máls í stafrænu pósthólfi. Fram að gildistöku laga nr. 105/2021, um stafrænt pósthólf í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda, hefði það þó verið háð því að slík tilkynning væri skýrlega heimiluð með lögum eða málsaðili fallist á að málsmeðferðin yrði rafræn. Þá þyrfti stjórnvald jafnframt að gæta að tilkynningar- og leiðbeiningarskyldu sinni með fullnægjandi hætti. Þá taldi umboðsmaður ekki unnt að fallast á að sú tilkynning, sem lögreglustjóri hafði sent í pósthólf A, hefði öðlast önnur og íþyngjandi réttaráhrif gagnvart viðtakanda hennar við gildistöku laganna og þar með að ákvörðun um frávísun á kæru A hefði öðlast réttaráhrif við það.

Í áliti sínu gerði umboðsmaður ýmsar aðrar athugasemdir við málsmeðferð ríkissaksóknara. Fundið var að því að ríkissaksóknari hefði framsent upphaflega kæru A til lögreglu án þess að honum hefði verið tilkynnt um það. Þá hefði embættið ekki rannsakað fullyrðingar A um að hann hefði ekki átt þess kost að kynna sér ákvörðun lögreglustjórans áður en máli hans var vísað frá. Umboðsmaður benti á að þrátt fyrir að erindi A til ríkissaksóknara eftir það tímamark bæru með sér að hann hefði enn ekki fengið afrit ákvörðunarinnar yrði ekki séð að orðið hefði verið við beiðni hans á þá leið. Það samrýmdist ekki ákvæði stjórnsýslulaga um upplýsingarétt aðila máls. Í ljósi eftirlitshlutverks og yfirstjórnunarheimilda ríkissaksóknara benti umboðsmaður að lokum á að í ákvörðun sinni hefði lögreglustjóri ekki veitt leiðbeiningar um heimild til þess að fá hana rökstudda.

Umboðsmaður mæltist til þess að ríkissaksóknari tæki mál A til nýrrar meðferðar kæmi fram ósk þess efnis frá honum og tæki þá mið af þeim sjónarmiðum sem sett væru fram í álitinu. Að öðru leyti var þeim tilmælum beint til embættisins að það gætti framvegis að þeim atriðum sem fram kæmu í álitinu.

   

Umboðsmaður lauk málinu með áliti 7. mars 2023.