03. desember 2018

Áfram óskað eftir upplýsingum um geðheilbrigðismál fanga

Heilbrigðisráðherra hefur svarað fyrirspurn umboðsmanns um hvað ætlunin sé að gera til að bæta úr geðheilbrigðis- og sálfræðiþjónustu við fanga.

Eins og fram kom í frétt í október  hafði dómsmálaráðuneytið í bréfi til umboðsmanns tekið undir áhyggjur hans um stöðuna í geðheilbrigðisþjónustu fanga og lýst því að framkvæmd laga um fullnustu refsinga tryggði ekki með fullnægjandi hætti mannréttindi fanga. Í bréfi umboðsmanns til heilbrigðisráðherra  í október var bent á þessa afstöðu dómsmálaráðuneytisins og óskað eftir svörum um hvaða áform ráðuneyti heilbrigðismála hefði um að bæta úr þessu. Bent var á að greiða þyrfti úr málinu með samstarfi velferðarráðuneytis, dómsmálaráðuneytis og eftir atvikum annarra stjórnvalda.

Í ljósi svara heilbrigðisráðherra hefur dómsmálaráðherra nú verið beðinn um álit á þeim fyrirætlunum sem lýst er í svarbréfinu. Umboðsmaður spyr dómsmálaráðherra hvort fyrirhugaðar aðgerðir séu fullnægjandi til að bæta úr þeim annmörkum sem dómsmálaráðuneytið hafi lýst að væru fyrir hendi í þessum málum. Einnig hvort þegar hafi verið gripið til einhverra viðbragða vegna bréfsins og/eða hvort fyrir liggi hver næstu skref ráðuneytisins verði í málinu.

Í samskiptum við umboðsmann hafa fangelsismálayfirvöld lýst áhyggjum sínum af því að á Litla-Hrauni hafi fangar með alvarlega geðræn vandamál verið vistaðir. Jafnframt hefur áhyggjum verið lýst af almennri geðheilbrigðisþjónustu í fangelsum og hvernig hún samræmist ákvæðum laga. Vegna þessa taldi umboðsmaður rétt að Fangelsismálastofnunin fengi tækifæri til að koma á framfæri athugasemdum eða upplýsingum vegna þeirra fyrirætlana sem lýst er í bréfi heilbrigðisráðherra. Einkum hvort og að hvaða marki þær væru líklegar til að bæta úr annmörkunum.

Óskað er eftir svörum bæði frá dómsmálaráðherra og Fangelsismálastofnun eigi síðar en 15. desember nk.

Bréf velferðarráðuneytis til umboðsmanns

Bréf umboðsmanns til dómsmálaráðherra

Bréf umboðsmanns til Fangelsismálastofnunar

Tengdar fréttir

Brýnt að fá svör um úrbætur í málum geðsjúkra fanga 

Framkvæmd laga tryggir ekki mannréttindi fanga – UA óskar eftir svörum um úrbætur

Drög að skýrslu um fangelsið á Litla-Hrauni

Umboðsmaður tekur við OPCAT-eftirliti