06. desember 2018

Ekki heimilt að innheimta fjallskilagjald

Sveitarfélög fara með afrétta- og fjallskilamál innan umdæma sinna á grundvelli laga þar sem m.a. er mælt fyrir um kostnað af fjallskilum. Í nýlegu áliti komst umboðmaður að þeirri niðurstöðu að úrskurður sýslumannsins á Vesturlandi, sem hafði staðfest álagningu fjallskilagjalds á eiganda jarðar í Borgarbyggð, hefði ekki verið í samræmi við lög.

Í málinu var einkum deilt um hvort heimilt hefði verið að leggja fjallskilagjöld á jarðareiganda sem átti ekki rétt til að nýta nein þau lönd til búfjárbeitar sem kostnaður við sameiginleg fjallskil féll til af. Umboðsmaður benti á að hann hefði áður fjallað um sambærilegt mál í áliti nr. 2638/1999. Þar hafi hann komist að þeirri niðurstöðu að lög um afréttamálefni og fjallskil kvæðu á um tiltekna niðurjöfnun kostnaðar sem leiddi af fjallskilum og að niðurjöfnun væri bundin við þann kostnað. Álagning fjallskilagjalda af hálfu sveitarfélaga væri því þjónustugjald sem yrði eingöngu lagt á þá aðila sem ættu rétt til að nýta umrædda þjónustu. Þar sem slíkt hefði ekki átt við í máli umrædds landeiganda hefði úrskurður sýslumanns ekki verið í samræmi við lög. Í þeim efnum benti umboðsmaður á að fyrir lægju dómar frá þremur héraðsdómstólum um sama efni sem væru í samræmi við álit hans, þar af hefðu tveir legið fyrir þegar sýslumaður kvað upp úrskurð sinn. Þá taldi hann tilefni til að gera athugasemdir við svör sýslumannsins á Vesturlandi vegna málsins sem og þá afstöðu Borgarbyggðar að taka ekki afstöðu til beiðni landeigandans um endurgreiðslu fjallskilagjalda.

Umboðsmaður beindi þeim tilmælum til sýslumannsins á Vesturlandi að taka málið til meðferðar að nýju, kæmi fram beiðni þess efnis frá landeigandanum, og haga þá úrlausn þess í samræmi við sjónarmiðin í álitinu. Þá beindi umboðsmaður því til Borgarbyggðar að taka beiðni um endurgreiðslu fjallskilagjalds til efnislegrar afgreiðslu sem og að þessi stjórnvöld hefðu framvegis þau sjónarmið sem rakin væru í álitinu í huga í störfum sínum. Þá taldi umboðsmaður tilefni til að vekja athygli sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra á málinu þar sem mismunandi álagning fjallskilagjalda getur haft þýðingu milli fjallskilaumdæma en einnig ráðherra sveitarstjórnarmála í ljósi eftirlitshlutverks ráðuneytis hans með sveitarfélögum.

Álit umboðsmanns í máli nr. 9305/2017