Mál sem varða opinbera starfsmenn hafa verið fyrirferðamikil í starfsemi umboðsmanns á undanförnum árum. Í flestum tilvikum lúta kvartanir til umboðsmanns að einhverjum atriðum sem umsækjendur um opinber störf telja hafa farið úrskeiðis í ráðningarferli þar sem annar umsækjandi hefur í kjölfarið verið ráðinn í umrætt starf.
Í slíkum málum hefur í auknum mæli reynt á aðstoð utanaðkomandi aðila í ráðningarferli þegar veita á opinber störf. Þar þarf m.a. að hafa í huga að ráðgjöf utanaðkomandi aðila, t.d. einkafyrirtækja, leysir ekki stjórnvaldið sjálft undan þeim skyldum sem á því hvíla við meðferð málsins á grundvelli laga og óskráðra meginreglna stjórnsýsluréttar. Þrátt fyrir að umsóknir séu t.d. sendar til einkafyrirtækis sem leggur mat á umsækjendur ber stjórnvaldið áfram ábyrgð á að gætt sé að viðeigandi réttaröryggisreglum.
Umboðsmaður lauk nýverið máli þar sem umsækjandi um starf hafði kvartað yfir ráðningarferli þar sem Vatnajökulsþjóðgarður hafði, eftir að starf var auglýst, hætt við að ráða í starfið. Í kjölfarið var starfið auglýst á ný þar sem umsækjandinn sótti aftur um en umsókn hans kom þar aldrei til mats. Þegar umboðsmaður spurðist fyrir um málið var því borið við að mistök hafi átt sér stað við framsendingu umsóknarinnar til einkafyrirtækis sem lagði mat á umsækjendur sem hafi falist í því að slegið var inn rangt netfang hjá ráðgjafafyrirtækinu sem annaðist úrvinnslu umsóknanna.
Við meðferð málsins hafði umsækjandinn komið á framfæri andmælum vegna umsagna þar sem hann taldi viðkomandi ekki geta veitt hlutlausa umsögn um hann. Vatnajökulsþjóðgarður taldi andmælin ekki geta haft þýðingu við mat á umsögnum þar sem þær hefðu ekki falið í sér leiðréttingu á villum eða rangfærslum. Umboðsmaður tók fram að sú afstaða hefði ekki verið í samræmi við andmælareglu stjórnsýslulaga. Stjórnvaldinu hefði borið að taka afstöðu til andmælanna og leggja mat á hvort og þá hvaða þýðingu þau kynnu að hafa og meta umsagnir heildstætt. Að virtum gögnum málsins og skýringum Vatnajökulsþjóðgarðs var það álit umboðsmanns að ekki hefði verið sýnt fram á að málefnaleg sjónarmið hafi búið að baki því að hætta við ráða í umrætt starf og að verulegir annmarkar hefðu verið á ráðningarferlinu og þeirri aðferð sem viðhöfð var við mat á umsögnum í ferlinu.
Þá var það jafnframt álit hans að umsókn umrædds umsækjanda hefði ekki verið lögð í réttan lagalegan farveg eða sýnt hefði verið fram á að málefnaleg sjónarmið hefðu ráðið för við meðferð umsóknar hans í seinna ráðningarferlinu. Þegar atvik málsins voru virt heildstætt voru það tilmæli umboðsmanns að leitað yrði leiða til að rétta hlut umsækjandans auk þess sem framvegis yrði gætt að þeim sjónarmiðum sem kæmu fram í álitinu. Umboðsmaður taldi jafnframt tilefni til að kynna umhverfis- og auðlindaráðherra sem fer með yfirstjórn mála er varða Vatnajökulsþjóðgarð álitið.
Álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 9519/2017