16. apríl 2019

Eftirlitsheimsókn í fangageymslu lögreglunnar á Hverfisgötu

Umboðsmaður og starfsfólk hans hafa í vikunni skoðað og kynnt sér aðbúnað og starfshætti í fangageymslu lögreglunnar á Hverfisgötu í Reykjavík. Þetta er liður í OPCAT-eftirliti umboðsmanns sem felur í sér að taka út starfsemi á stöðum þar sem fólk dvelur sem er eða kann að vera svipt frelsi sínu. Á Hverfisgötu eru 16 fangaklefar.

Í eftirlitsheimsóknum sem þessum er aðbúnaður og starfshættir á viðkomandi stað skoðaðir. Áhersla er lögð á trúnaðarsamtöl við þá sem þar dvelja hverju sinni og starfsfólk. Meðal annars er verklag sem lýtur að hugsanlegum þvingunum og öryggisráðstöfunum skoðað, auk þess sem fyrirkomulag skráninga á ýmsum atriðum er sérstaklega kannað. Gerð er skýrsla eftir hverja heimsókn þar sem greint er frá niðurstöðum og eftir atvikum bent á leiðir til úrbóta í starfseminni. Heimsóknarskýrslur verða birtar á vefsíðu umboðsmanns.

OPCAT-eftirlit umboðsmanns grundvallast á sérstakri bókun við samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Fyrstu heimsóknir umboðsmanns vegna þessa voru farnar undir lok síðasta árs. Unnið er að skýrslu um þær.

Með frelsissviptingu í OPCAT-bókuninni er átt við hvers konar gæslu, fangelsun eða vistun af hálfu hins opinbera eða einkaaðila, þar sem einstaklingurinn hefur ekki leyfi til að yfirgefa vistunina vegna úrskurðar, ákvörðunar eða samþykkis dómstóls, stjórnvalds eða annars yfirvalds. Undir þetta geta einnig fallið tilvik þar sem yfirvöld láta frelsissviptingu óátalda.

 

Tengdar fréttir

OPCAT-bókunin fullgilt 

Eftirlitsheimsókn á neyðarvistun Stuðla

Fyrsta OPCAT-heimsókn umboðsmanns

Umboðsmaður tekur við OPCAT-eftirliti