28. nóvember 2018

Eftirlitsheimsókn á neyðarvistun Stuðla

Umboðsmaður og starfsfólk hans hafa í vikunni kynnt sér starfsemi neyðarvistunarinnar á meðferðarstöðinni Stuðlum í Reykjavík. Þetta er liður í svo kölluðu OPCAT-eftirliti sem felur í sér eftirlit með stöðum þar sem fólk dvelur sem er eða kann að vera svipt frelsi sínu.

Á neyðarvistun Stuðla geta barnaverndarnefndir eða lögregla í samráði við nefndirnar vistað unglinga í neyðartilvikum. Skal vistunin vara í eins skamman tíma og unnt er eða að hámarki í tvær vikur á meðan starfsmenn barnaverndarnefndar huga að öðrum úrræðum.

Í eftirlitsheimsóknum sem þessum er aðbúnaður og starfshættir á viðkomandi stað skoðaðir. Áhersla er lögð á trúnaðarsamtöl við þá sem þar dvelja en einnig er rætt við starfsfólk og stundum aðstandendur. Meðal annars er verklag er lýtur að hugsanlegum þvingunum og öryggisráðstöfunum skoðað. Gerð er skýrsla eftir hverja heimsókn þar sem greint er frá niðurstöðum og eftir atvikum bent á leiðir til úrbóta í starfseminni. Heimsóknarskýrslur verða birtar á vefsíðu umboðsmanns.

OPCAT-eftirlit umboðsmanns grundvallast á sérstakri bókun við samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Það fer fram með heimsóknum og úttektum á þeim stöðum sem undir það falla. Fyrsta eftirlitsheimsókn umboðsmanns vegna þessa var fyrir mánuði á þrjár deildir geðsviðs Landspítala á Kleppi í Reykjavík. Unnið er að skýrslu um þá heimsókn.

Með frelsissviptingu í OPCAT-bókuninni er átt við hvers konar gæslu, fangelsun eða vistun af hálfu hins opinbera eða einkaaðila, þar sem einstaklingurinn hefur ekki leyfi til að yfirgefa vistunina vegna úrskurðar, ákvörðunar eða samþykkis dómstóls, stjórnvalds eða annars yfirvalds. Undir þetta geta einnig fallið tilvik þar sem yfirvöld láta frelsissviptingu óátalda.

Tengdar fréttir:

Vefsíða um eftirlit með aðbúnaði frelsissviptra opnuð

Fyrsta OPCAT-heimsókn umboðsmanns

Umboðsmaður tekur við OPCAT-eftirliti