30. september 2019

Yfirstjórnunar- og eftirlitshlutverki ráðuneytis ábótavant

Umboðsmaður lauk í liðinni viku þremur álitum þar sem reyndi á yfirstjórnunar- og eftirlitshlutverk mennta- og menningarmálaráðuneytisins.

Í öllum málunum hafði reynt á aðkomu ráðuneytisins og úrlausn þess þegar leitað var til þess með erindi vegna tiltekinna mála og þá einkum hvort einstök mál hefðu verið lögð í réttan stjórnsýslulegan farveg. Var það niðurstaða umboðsmanns að í þessum málum hefði skort á að viðbrögð ráðuneytisins hefðu verið fullnægjandi með hliðsjón af yfirstjórnunar- og eftirlitsheimildum þess. Þá kom hann þeirri ábendingu jafnframt á framfæri að ráðuneytið gerði viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að starfshættir þess, verklag og meðferð mála yrði framvegis betur úr garði gerð.

Umboðsmaður hefur áður kynnt ráðherra þau almennu sjónarmið sem byggt er á í álitunum þremur sem hér eru til umfjöllunar. Í skýrslu umboðmanns fyrir árið 2018 sem er nýkomin út, er greint frá því að um mitt ár 2018 taldi hann sérstakt tilefni til að upplýsa mennta- og menningarmálaráðherra um að ítrekað hefðu orðið tafir á á að ráðuneytið svaraði fyrirspurnum hans. Við það bættist að um tíma hefðu umboðsmanni borist kvartanir og ábendingar um tafir á meðferð mála og ófullnægjandi svör ráðuneytisins. Af hálfu ráðherra hefur komið fram að unnið sé að úrbótum á starfsháttum ráðuneytisins hvað athugasemdir umboðsmanns snerti. Álitin þrjú sem nú hafa verið birt skerpa enn á þeim almennu athugasemdum sem áður hefur verið komið á framfæri við ráðuneytið. 

Í bréfi umboðsmanns til mennta- og menningarmálaráðherra vegna málanna þriggja er hnykkt á því sammæli þeirra að þegar skipulagsbreytingar og ráðningar nýrra starfsmanna sem séu liður í þessum úrbótum verði að baki í ráðuneytinu sé ætlunin að umboðsmaður fari nánar yfir efni álitanna með ráðherra og starfsmönnum hans.

  

Álit umboðsmanns í máli nr. 9622/2018

Álit umboðsmanns í máli nr. 9896/2018

Álit umboðsmanns í máli nr. 9944/2019