26. nóvember 2019

Auknar kröfur til hæfis í endurskoðendaráði

Nefndarmenn stjórnsýslunefndar teljast almennt ekki vanhæfir til meðferðar máls samkvæmt stjórnsýslulögum af þeirri ástæðu einni að einn nefndarmaður sé vanhæfur. Ekki er þó hægt að útiloka að nefndarmenn geti orðið vanhæfir á þessum grundvelli ef tilteknar aðstæður eru fyrir hendi.

Á þetta reyndi í nýlegu áliti umboðsmanns Alþingis þar sem umboðsmaður taldi að  mat aðalmanna í endurskoðendaráði hefði ekki verið í samræmi við svonefnda matskennda hæfisreglu í stjórnsýslulögum. Reglan hljóðar um að nefndarmaður sé vanhæfur til meðferðar máls ef að öðru leyti eru fyrir hendi þær aðstæður sem eru fallnar til þess að draga óhlutdrægni hans í efa með réttu.  

Í málinu stóðu nefndarmenn frammi fyrir því að meta hæfi sitt til að úrskurða í máli  vegna kæru sem meðal  annars beindist að einum samnefndarmanni þeirra sem hafði vikið sæti við meðferð málsins.

Umboðsmaður benti á að endurskoðendaráði væri falið að rækja opinbert eftirlit með störfum endurskoðenda og hefði heimildir til afskipta af störfum þeirra og starfsréttindum. Ráðið hefði bæði það hlutverk að úrskurða um kærur vegna starfa endurskoðenda og hafa að eigin frumkvæði eftirlit með störfum þeirra. Endurskoðendaráð tæki þannig ákvarðanir í krafti valdheimilda sinna gagnvart endurskoðendum sem gætu haft áhrif á orðspor þeirra í faglegum efnum og um starfshætti en gætu einnig verið liður í því að starfsréttindi þeirra til endurskoðunar væru felld niður.

Í áliti umboðsmanns kemur fram að þær aðstæður sem voru fyrir hendi hafi kallað á að meta hafi þurft hæfi annarra nefndarmanna heildstætt. Ekki væri útilokað að nefndarmenn gætu orðið vanhæfir þegar samnefndarmaður þeirra væri aðili máls og það reyndi á mikilvæga hagsmuni hans. Það gæti jafnframt átt við þegar um væri að ræða stjórnsýslunefndir sem líktust dómstólum og skæru úr um þrætu tveggja eða fleiri aðila með ólíka hagsmuni. Í kærunni var samnefndarmaðurinn sakaður um að hafa brotið gegn lögum um endurskoðendur og siðareglum Félags löggiltra endurskoðenda. Við úrlausn málsins reyndi líka á að hvaða marki kæruefnin áttu undir endurskoðendaráð og þar gat að minnsta kosti að hluta verið um að ræða stefnumarkandi afstöðu um eftirlitshlutverk ráðsins. Þá hefði ekki verið um að ræða að meta hvort samnefndarmaðurinn hefði brotið gegn fastmótuðum skilyrðum laga og reglna heldur reyndi á lagagrundvöll sem veitti töluvert svigrúm til mats. Endurskoðendaráði hefði því ekki verið heimilt að byggja mat sitt á hæfi nefndarmanna til meðferðar málsins á því hverjar þeir teldu vera sennilegar afleiðingar um ákvarðanir ráðsins gagnvart samnefndarmanni þeirra heldur hefði þurft að meta það hvort málið varðaði mikilvæga hagsmuni samnefndarmanns þeirra hlutlægt.

Var það niðurstaða umboðsmanns að þau sjónarmið sem reyndi á við mat á hæfi nefndarmanna hefðu með hliðsjón af atvikum málsins mælt með því að gerðar yrðu auknar kröfur um hæfi nefndarmanna til meðferðar málsins og þá með vísan til þeirra traustsjónarmiða sem búa að baki hinni matskenndu hæfisreglu 6. tölul. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga. Var það álit umboðsmanns að mat aðalmanna í endurskoðendaráði til meðferðar á umræddu máli hefði ekki verið í samræmi lagagreinina.

Umboðsmaður mæltist til þess að endurskoðendaráð tæki málið til meðferðar að nýju kæmi fram ósk þess efnis og leysti þá úr því í samræmi við þau sjónarmið sem rakin hefðu verið í álitinu. Jafnframt að ráðið tæki framvegis mið af þeim í störfum sínum.

Álit umboðsmanns í máli nr. 9964/2019