28. nóvember 2019

Háskólaráði óheimilt að framselja lögbundið úrskurðarvald sitt

Þegar verka­skipting innan stjórnvalds er ákveðin með lögum er stjórnvaldið bundið af því að framkvæma verkefni sín með þeim hætti sem löggjafinn hefur mælt fyrir um. Þegar mælt er sérstaklega fyrir um lögbundið úrskurðarvald yfirstjórnar stjórnvalds þá verður slíkt vald ekki framselt til annars aðila innan stjórnvaldsins nema með skýrri lagaheimild.

Á þetta reyndi í nýlegu áliti umboðsmanns Alþingis í máli þar sem kvartað var yfir ákvörðun háskólaráðs Háskóla Íslands að vísa frá beiðni um að skipaður yrði óháður aðili til að endurmeta próf í doktorsnámi við skólann. Byggði frávísun háskólaráðs á að það hefði framselt slíkt vald til sérstakrar kærunefndar innan skólans.

Í skýringum háskólans til umboðsmanns kom fram að það teldi heimild í lögum um opinbera háskóla til innra framsals úrskurðarvalds í málum nemenda. Umboðsmaður féllst ekki á þessar skýringar. Löggjafinn hefði tekið afstöðu til þess að háskólaráði væri falið endurskoðunar- og úrskurðarhlutverk í málefnum háskólans. Þá hefði verið tekin sérstök afstaða til þess hvernig háskólaráð skuli skipað og hvaða fulltrúar eigi þar sæti þar sem m.a. hefði verið litið til þess sjónarmiðs að styðja við endurskoðunar- og úrskurðarhlutverk ráðsins. Af því leiddi að það væri hlutverk þess að hafa endanlegt úrskurðarvald í þeim málum sem þar féllu undir.

Umboðsmaður lagði í þessu sambandi áherslu á að endurskoðunar- og úrskurðarhlutverk háskólaráðs væri jafnframt liður í því að ráðið gæti beitt stjórnunarheimildum sínum vegna þess hlutverks sem því væri falið með lögum. Þau mál sem bærust háskólaráði gætu jafnframt gefið því betra tækifæri til að leysa úr einstökum málum með stefnumarkandi hætti og þá t.d. til að skýra nánar efni þeirra reglna sem háskólaráð hefur sett. Þótt almennar reglur stjórnsýsluréttarins um valdframsal stjórnvalda gengju út frá því að forstöðumenn hefðu ríka heimild til að fela starfsmönnum tiltekin verkefni á grundvelli stjórnunarréttar, og slíkt innra valdframsal þyrfti almennt ekki að byggja á sérstakri lagaheimild, væru takmörk á því að háskólaráð gæti framselt endanlegt úrskurðarvald sitt í málefnum háskólans með hliðsjón af hlutverki og skipan ráðsins. Ákvörðun ráðsins að vísa erindi nemandans frá var því að áliti umboðsmanns ekki í samræmi við lög.  

Beindi umboðsmaður þeim tilmælum til háskólaráðs að taka erindið til endurskoðunar, kæmi fram beiðni þess efnis, og leysa þá úr því í samræmi við þau sjónarmið sem rakin hefðu verið í álitinu. Jafnframt að ráðið geri nauðsynlegar ráðstafanir til að færa starfshætti sína, og starfshætti innan háskólans, að því er varði meðferð á úrskurðarvaldi ráðsins samkvæmt lögum um opinbera háskóla til samræmis við sjónarmiðin í álitinu og hafa þau framvegis í huga í störfum sínum.

 

Álit umboðsmanns í máli nr. 9891/2018