Umboðsmaður Alþingis sendi mennta- og menningarmálaráðherra bréf í vikunni þar sem vakin var athygli á atriðum er lúta að gildissviði upplýsingalaga gagnvart Ríkisútvarpinu ohf.
Tilefni bréfsins var kvörtun frá einstaklingi yfir úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál þar sem nefndin staðfesti ákvörðun Ríkisútvarpsins ohf. um að synja beiðni um aðgang að upplýsingum um umsækjendur í starf hjá félaginu. Þrátt fyrir að umboðsmaður teldi ekki forsendur til að fullyrða að úrskurðurinn hefði ekki byggst á fullnægjandi lagagrundvelli taldi hann tilefni til að senda ráðherra ábendingu um hvernig til hefði tekist með lagasetningu í þessu tilviki.
Afrit af bréfinu var jafnframt sent allsherjar- og menntamálanefnd og stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis til upplýsinga.
Bréf umboðsmanns til aðila og mennta- og menningarmálaráðherra.