Lagaumgjörð um vistun handtekinna í fangageymslu lögreglu er rýr og ákveðin óvissa uppi um hvaða réttaröryggisreglur gilda um stöðu og vistun þeirra, eftir því á hvaða lagagrundvelli viðkomandi er vistaður þar.
Þetta kemur fram í nýrri skýrslu umboðsmanns í kjölfar OPCAT-eftirlitsheimsóknar í fangageymslu lögreglunnar á Hverfisgötu. Í eftirlitinu felst að heimsækja staði þar sem einstaklingar eru eða kunna að vera sviptir frelsi sínu og taka út aðbúnað þeirra og starfsemi á staðnum. Í skýrslunni er bent á að með aukinni áherslu á mannréttindareglur og eftirfylgni þeirra af hálfu eftirlitsstofnana og dómstóla hafi réttarþróun undanfarin ár í málefnum frelsissviptra, bæði hér á landi og í nágrannalöndum, verið í þá átt að mæla með beinum hætti fyrir í lögum um stöðu þeirra, aðbúnað og inngrip í persónufrelsi. Umboðsmaður beinir því til dómsmálaráðherra og ríkislögreglustjóra að huga að því hvaða breytingar þurfi að gera á núgildandi löggjöf og hafa frumkvæði að því að reglur um vistun handtekinna einstaklinga í fangageymslu verði settar í lög þar sem mælt sé fyrir um aðbúnað, meðferð og réttarstöðu þeirra.
Í skýrslunni kemur fram að ekki verði annað séð en að handtekið fólk njóti almennt viðunandi aðbúnaðar með tilliti til þess að vistuninni er einungis ætlað að vara í skamman tíma, að jafnaði í sólarhring hið mesta. Í þessum efnum eru þó sett fram tilmæli og ábendingar sem beinast m.a. að tilteknum öryggisatriðum og aðbúnaði. Þá er því beint til lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og ríkislögreglustjóra að endurskoða verklag til að tryggja að einungis lögreglumenn sem hafi til þess sérstaka menntun, þjálfun og valdbeitingarheimildir sinni störfum sem teljist til lögreglustarfa. Samhliða þeirri endurskoðun sé rétt að embættin taki til skoðunar og upplýsi dómsmálaráðuneytið um hvort og þá í hvaða tilvikum talin er þörf á valdbeitingarheimildum til handa öðrum starfsmönnum fangageymslu og þá hvaða kröfur skuli gera til menntunar og þjálfunar þeirra.
Þá beinir umboðsmaður því til lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu að huga að því hvernig hægt sé að tryggja aðkomu heilbrigðisstarfsfólks að mati á ástandi handtekinna áður en þau eru vistuð í fangageymslu, ekki hvað síst til að koma í veg fyrir sjálfsvígshættu. Einnig er vakin athygli á að dæmi séu um að börn á sakhæfisaldri, þ.e. 15-17 ára, séu vistuð í fangageymslum lögreglu. Í samræmi við áskilnað í lögum, alþjóðasamningum og fjölþjóðlegum viðmiðum beinir umboðsmaður þeim tilmælum til lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu að handtekin börn séu vistuð á stað sem hæfi aldri þeirra og þroska.
Fleiri ábendingar og tilmæli til stjórnvalda getur að líta í skýrslunni og óskar umboðsmaður eftir að þau geri grein fyrir viðbrögðum sínum fyrir 1. apríl 2021.
Skýrsla umboðsmanns er gerð á grundvelli OPCAT-eftirlits hans og er sú þriðja af þeim toga. Áður hefur verið fjallað um starfsemi þriggja lokaðra deilda á Kleppi og neyðarvistun Stuðla.
Skýrsla umboðsmanns um OPCAT-eftirlit í fangageymslu lögreglustöðvarinnar á Hverfisgötu
Skýrsla umboðsmanns um OPCAT-eftirlit á neyðarvistun Stuðla
Skýrsla umboðsmanns um OPCAT-eftirlit á Landspítala Kleppi