28. október 2020

Ráðuneyti meti hvort hundahald sé landbúnaður vegna umsóknar um lögbýli

Synjun atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins á umsókn um stofnun nýs lögbýlis frá félagi, sem er með rekstur og dýrahald fyrir hundasleðaferðir, byggði ekki á fullnægjandi lagagrundvelli að mati umboðsmanns. 

Á þetta reyndi í máli þar sem einkahlutafélag kvartaði yfir að atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefði synjað umsókn félagsins um stofnun nýs lögbýlis með vísan til neikvæðrar umsagnar sveitarstjórnar þar að lútandi. Umrædd jörð er skilgreind sem landbúnaðarsvæði í aðalskipulagi og snerist málið m.a. um hvort hundahald fyrir hundasleðaferðir gæti talist til landbúnaðar.

Umboðsmaður benti á að það er hlutverk ráðherra að veita leyfi til stofnunar lögbýlis og þá hvort skilyrði séu uppfyllt. Við slíkt mat er hann ekki bundinn af umsögn sveitarstjórnar og ber ráðherra að leggja sjálfstætt mat á málsatvik og upplýsa það með fullnægjandi hætti.

Sú afstaða ráðuneytisins að starfsemin gæti ekki talist til landbúnaðar byggði, líkt og í umsögn sveitarstjórnar, m.a. á því að hundar félagsins væru ekki búfé þar sem hundar væru ekki taldir upp sem búfé í tilteknum lögum. Í umsögn sveitarstjórnarinnar var fyrirhuguð starfsemi einnig talin til þess fallin að raska búrekstraraðstöðu nálægra jarða og vísað til áhyggja annarra landeigandi þar að lútandi.

Umboðsmaður benti á að hugtakið búfé væri ekki skilgreint í þeim heimildum sem helst reyndi á, þ.e. jarðalögum, skipulagslögum eða aðalskipulagi. Ekki yrði annað ráðið en að lengi hefði verið lagt til grundvallar í lögum að merking hugtaksins búfé væri matskennd. Þar skipti máli í hvaða tilgangi dýr væru haldin og hvernig land væri nýtt í þeirra þágu. Taldi hann að ráðuneytið hefði ekki lagt fullnægjandi mat á hvort áformuð starfsemi félagsins teldist til landbúnaðar og þar á meðal hvort félagið hygðist halda búfé. Þá hefði það ekki upplýst málið nægilega til að meta áhrif starfseminnar á búrekstrar­aðstöðu nálægra jarða. Hvað það snerti hefði ráðuneytið til að mynda ekki kannað hvort áhyggjur annarra landeigenda væru á rökum reistar að teknu tilliti til þess hvernig starfsemi félagsins yrði hagað. 

Beindi umboðsmaður því til ráðuneytisins að taka málið til meðferðar að nýju, kæmi fram beiðni þess efnis frá félaginu, og leysi þá úr því í samræmi við þau sjónarmið sem rakin væru í álitinu.

 

Álit umboðsmanns í máli nr. 10025/2019