Endurupptaka máls er leið stjórnsýslunnar til að bæta úr misfellum sem hafa orðið á afgreiðslu máls ef heimild er til slíks. Í ákveðnum tilvikum kann stjórnvaldi að vera skylt að endurupptaka mál. Í samræmi við það sem gengið var út frá við setningu stjórnsýslulaga útiloka ákvæði stjórnsýslulaga, um rétt aðila til endurupptöku máls, ekki að endurupptaka máls geti byggst á ólögfestum grundvelli.
Umboðsmaður lauk nýverið máli þar sem reyndi á reglur um endurupptöku máls í kjölfar mistaka stjórnvalds við meðferð þess. Í því sambandi benti hann á að stjórnvaldi kunni að vera skylt að endurupptaka mál þegar verulegur annmarki eða mistök hafa orðið við málsmeðferð og eftir atvikum afturkalla hana. Við endurupptöku mála í stjórnsýslunni þurfi að gæta þess að þar geti auk 24. gr. stjórnsýslulaga reynt á endurupptöku á ólögfestum grundvelli. Í málum sem umboðsmanni hafa borist vegna synjunar á endurupptöku mála hefur það einmitt viljað brenna við að málin hafi ekki verið lögð í réttan farveg að þessu leyti af hálfu stjórnvalda. Algengt er að eingöngu sé tekin afstaða til endurupptöku máls á grundvelli 24. gr. stjórnsýslulaga.
Í málinu sem um ræðir hafði kærunefnd húsamála fallist á að hún hefði gert mistök við fyrri meðferð þess. Nefndin hafði enn fremur upplýst umboðsmann að hún myndi endurupptaka málið ef beiðni um það kæmi frá aðila. Þegar erindi þar um barst féllst nefndin á að endurupptaka málið en dró það síðan til baka með vísan til þess að gagnaðilinn hefði ekki veitt samþykki sitt í samræmi við 24. gr. stjórnsýslulaga.
Umboðsmaður taldi að nefndin hefði ranglega lagt málið í farveg endurupptöku samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga. Afleiðingin af því hefði verið að synjun gagnaðila hefði verið látin girða fyrir að nefndin leysti nánar úr málinu á grundvelli endurupptöku. Taldi umboðsmaður að nefndinni hefði borið að halda meðferð málsins áfram í samræmi við ólögfestar reglur um endurupptöku máls og leggja mat á hvort tilefni og skilyrði væru til breytinga eða afturköllunar á fyrri niðurstöðu.
Umboðsmaður beindi því til kærunefndarinnar að taka framvegis mið að þeim sjónarmiðum sem rakin væru í álitinu. Í ljósi þess hvaða önnur atriði réðu niðurstöðu úrskurðar hennar taldi hann sig þó ekki hafa forsendur fyrir tilmælum til nefndarinnar um að fjalla á ný um málið.
Umboðsmaður vakti í niðurlagi álitsins athygli á að þótt þar væri fjallað um afgreiðslu kærunefndar húsamála á erindi um endurupptöku tiltekins máls teldi hann að atvik í málinu endurspegluðu almenn álitaefni sem hefðu ekki eingöngu þýðingu við störf kærunefndarinnar til framtíðar heldur gæti sú umfjöllun eftir atvikum átt við um störf annarra stjórnvalda, sbr. til hliðsjónar umfjöllun í skýrslu umboðsmanns til Alþingis fyrir árið 2019, bls. 57-59.
Álit umboðsmanns í máli nr. 10093/2019