28. janúar 2021

OPCAT-eftirlit á öryggisdeild Litla-Hrauns

Heimsókn í tengslum við OPCAT-eftirlit setts umboðsmanns og starfsfólks hans hófst í dag á Litla-Hrauni og lýkur á morgun. Þar er lokað fangelsi með 9 deildir fyrir allt að 87 karlfanga. 

Að þessu sinni eru kannaðar aðstæður þeirra sem vistaðir eru á öryggisdeild fangelsisins. Í aðdraganda heimsóknarinnar var óskað eftir tilteknum gögnum og upplýsingum um stöðu mála, m.a. varðandi heilbrigðisþjónustu við fanga.

Í OPCAT-heimsóknum eru skoðaðar aðstæður þeirra sem dvelja á þeim stöðum sem eftirlitið tekur til sem og starfshættir við gæslu þeirra og umönnun. Í því tilliti er sérstaklega gætt að verklagi sem lítur að hugsanlegum þvingunum og öryggisráðstöfunum, skráningu og meðferð gagna, aðgengi að heilbrigðiþjónustu og möguleikum á virkni, svo sem í starfi, námi, tómstundum og fleira.

Gerð er skýrsla eftir hverja heimsókn þar sem greint er frá niðurstöðum og eftir atvikum bent á leiðir til úrbóta í starfseminni. Heimsóknarskýrslur eru birtar á vefsíðu umboðsmanns.

    

  

Tengd frétt

Athugun á stöðu geðheilbrigðisþjónustu og aðstæðum fanga á Litla-Hrauni