Ummæli bæjarstjóra í gögnum málsins um að starfsmaður væri vanhæfur voru meðal atriða sem leiddu til þess starfsmanninum bar að víkja sæti og taka ekki þátt í ráðningarviðtölum.
Í málinu reyndi á hvort starfsmanni sveitarfélags var heimilt að koma að ráðningu í starf hjá sveitarfélaginu. Við meðferð málsins hafði komið fram af hálfu bæjarstjóra að leita þyrfti til hlutlauss aðila til að meta umsækjendur vegna vanhæfis starfsmanns sveitarfélagsins og var í kjölfarið leitað til ráðningarfyrirtækis. Starfsmaðurinn hafði jafnframt sjálfur lýst því yfir að hann teldi rétt að takmarka aðkomu sína að málinu. Starfsmaðurinn tók hins vegar þátt í viðtölum við umsækjendur með ráðningarfyrirtækinu.
Í skýringum til umboðsmanns bar sveitarfélagið því við að um óvarkára notkun orðsins vanhæfi hefði verið að ræða á sínum tíma. Settur umboðsmaður taldi þær skýringar hvorki í samræmi við ákvarðanir sem teknar hefðu verið þegar atvik áttu sér stað né þá afstöðu sem hefði birst í gögnum málsins. Þá hefðu skýringar sveitarfélagsins um hæfi starfsmanns sveitarfélagsins auk þess hvorki verið til þess fallnar að upplýsa málið né vekja traust á meðferð þess. Með hliðsjón af gögnum málsins taldi settur umboðsmaður að starfsmaðurinn hefði verið vanhæfur og því rétt að hann viki sæti við meðferð málsins og tæki ekki þátt í viðtölum við umsækjendur.
Settur umboðsmaður beindi því til sveitarfélagsins að leita leiða til að rétta hlut viðkomandi og taka framvegis mið af þeim sjónarmiðum sem rakin væru í álitinu. Í ljósi svars sveitarfélagsins við beiðni umsækjandans um gögn í ráðningarmálinu vakti hann jafnframt athygli á nýlegu áliti um upplýsingarétt umsækjanda í ráðningarmálum og benti sveitarfélaginu á að hafa þau sjónarmið sem þar væru rakin framvegis í huga.
Álit setts umboðsmanns í máli nr. 10428/2020