Settur umboðsmaður telur dómsmálaráðuneytið hafa átt að bregðast með ákveðnari og skýrari hætti við bréfasendingum og yfirlýsingum fyrrverandi ríkislögreglustjóra í nafni embættisins.
Í málinu hafði ríkislögreglustjóri notað bréfsefni embættisins til að rita tveimur einstaklingum bréf vegna umfjöllunar þeirra um fund sem ríkislögreglustjóri og starfsmenn hans sóttu. Í bréfinu var fullyrt að einstaklingarnir bæru ábyrgð á ólögmætri meingerð gagnvart þeim sem umfjöllunin beindist gegn.
Dómsmálaráðuneytið komst að þeirri niðurstöðu að efni og framsetning bréfanna hefðu verið ámælisverð og að helst mætti skilja þau á þann veg að tilgangur þeirra hefði verið að vernda persónulega hagsmuni ríkislögreglustjóra og ef til vill jafnframt fyrrverandi starfsmanna embættisins. Ráðuneytið taldi þó ekki tilefni til að beita heimildum laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins en lagði þó til að ríkislögreglustjóri kæmi leiðréttingum á framfæri við umrædda einstaklinga.
Settur umboðsmaður taldi að stjórnvöld gætu við vissar aðstæður þurft að bregðast við umfjöllun og koma á framfæri leiðréttingum vegna hennar. Ef stjórnvald stofnaði til samskipta við einstakling í því augnamiði að viðkomandi léti af umfjöllun sem stjórnvaldinu mislíkaði þá samræmdist slík framganga þó ekki grundvallarreglum stjórnsýsluréttarins. Þá gæti stjórnvald ekki, án skýrrar lagaheimildar, tekið afstöðu til þess í slíkum samskiptum hvort tiltekinn einstaklingur eða lögaðili hefði brotið lög.
Settur umboðsmaður taldi að ríkislögreglustjóri bæri samkvæmt lögum sem æðsti handhafi lögregluvalds sérstaklega ríkar hlutlægnisskyldur að þessu leyti. Í ljósi þessa var það niðurstaða setts umboðsmanns að dómsmálaráðuneytið hefði ekki brugðist nægilega skýrt og ákveðið við samskiptum ríkislögreglustjóra í nafni embættisins, auk þess sem tilefni hefði verið til að bregðast sérstaklega við vegna bréfaskipta hans sem fram fóru eftir aðfinnslur ráðuneytisins.
Þar sem fyrir lægi að sá einstaklingur sem gegndi embætti ríkislögreglustjóra þegar atvik málsins áttu sér stað hefði látið af embætti taldi settur umboðsmaður ekki tilefni til að hann beindi sérstökum tilmælum til ráðuneytisins um að það tæki viðbrögð sín gagnvart þeim einstaklingi til meðferðar að nýju. Settur umboðsmaður beindi hins vegar þeim tilmælum til ráðuneytisins að taka framvegis mið af sjónarmiðunum í álitinu, meðal annars í tengslum við ákvarðanir um hvernig stjórnunarúrræðum á borð við áminningu yrði beitt. Vísaði settur umboðsmaður þá til þess að þótt ráðherra hefði mat um hvort veita ætti embættismönnum áminningu þá gæfu slíkar ákvarðanir til kynna hvaða augum æðra stjórnvald líti á framgöngu embættismanna í ljósi reglna og viðmiða sem fylgja bæri í opinberri starfsemi.
Í ljósi þess hvernig til tókst hjá ríkislögreglustjóra að fara að ábendingum ráðuneytisins, um að koma leiðréttingum á framfæri við þá einstaklinga sem áttu í hlut, var þeim tilmælum einnig beint til ráðuneytisins að leita leiða til að rétta hlut viðkomandi einstaklinga hvað það snerti.
Álit setts umboðsmanns í málum nr. 9683/2018 og 9694/2018