Fulltrúi facebook hópsins Aðför að heilsu kvenna, Erna Bjarnadóttir, og krabbameinslæknirinn Gunnar Bjarni Ragnarsson komu á fund umboðsmanns í dag og ræddu um fyrirkomulag leghálsskimana og þann farveg sem þær hafa verið í undanfarin misseri.
Yfir 17 þúsund manns eru í hópnum sem Erna er í forsvari fyrir. Komu hún og Gunnar Bjarni ýmsum ábendingum á framfæri á fundinum. Umboðsmaður greindi frá því að honum hefðu borist á þriðja tug kvartana vegna málsins ásamt óformlegum ábendingum sem hafi orðið honum tilefni til að fylgjast náið með því. Málið sé enn til skoðunar hjá stjórnvöldum og aðhafist umboðsmaður því ekki að svo stöddu. Hins vegar sé ástæða til að fylgjast grannt með framvindunni og bregðast við gefist tilefni til. Hann benti jafnframt á að þær konur sem hafi átt mál til meðferðar hjá stjórnvöldum vegna leghálsskimana geti leitað sérstaklega til umboðsmanns með þau, að skilyrðum fyrir kvörtun til umboðsmanns uppfylltum, s.s. að kæruleiðir hafi verið tæmdar.
Bréf umboðsmanns vegna kvartana yfir fyrirkomulagi leghálsskimana