Á vegum samráðsvettvangs um úrbætur í brunavörnum er lagt til, við samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið, að heimildir Þjóðskrár Íslands til að takmarka skráningu lögheimilis í íbúðarhúsnæði verði endurskoðaðar. Þá stendur til að kortleggja óleyfisbúsetu, auk þess sem gerðar hafa verið margháttaðar tillögur að úrbótum á brunavörnum.
Þar sem þessi mál hafa verið tekin til skoðunar og eru í ákveðnum farvegi hjá stjórnvöldum hefur umboðsmaður ákveðið, að svo stöddu, að ljúka athugun á tilteknum atriðum í tengslum við skráningu lögheimilis og eftirliti með henni. Athugunin hófst í kjölfar eldsvoðans að Bræðraborgarstíg 1 í Reykjavík í fyrrasumar. Þar kom í ljós að 73 einstaklingar voru með skráð lögheimili í 450 fermetra húsi. Dagana á eftir bárust fleiri fréttir um að víða ættu tugir lögheimili undir sama þaki í hefðbundnu íbúðarhúsnæði. Athugun umboðsmanns beindist einkum að því hvort og hvaða takmörk væru á því hversu mörg gætu verið skráð með lögheimili á sama stað m.t.t. skráðs fermetrafjölda viðkomandi húsnæðis í fasteignaskrá. Einnig var sjónum beint að eftirliti þegar grunur léki á að óeðlilega mörg væru skráð á sama stað. Í ljósi framangreindra viðbragða stjórnvalda er ekki tilefni til að halda athuguninni áfram að sinni en fylgst verður með framvindunni.
Bréf umboðsmanns til Þjóðskrár Íslands og Húsnæðis og mannvirkjastofnunar
Tengd frétt
Þjóðskrá spurð um eftirlit með skráningu lögheimilis og aðseturs