04. október 2021

Kvörtunum fjölgar og fleiri mál afgreidd milli ára

Kvörtunum til umboðsmanns fjölgaði um tæplega 14% á fyrstu þremur fjórðungum ársins miðað við sama tíma í fyrra. Hlutfallslega fjölgaði afgreiddum málum svo mun meira eða um 22,5%.

Í lok september höfðu borist 437 kvartanir samanborið við 384 í fyrra. Þá höfðu 442 mál verið afgreidd á móti 361 fyrir ári. Að meðaltali hafa tæplega fimmtíu kvartanir borist hvern mánuð ársins og ef fram heldur sem horfir til áramóta verður slegið met í fjölda kvartana á einu ári. Í fyrra bárust 540 sem er metfjöldi og var tæplega þriðjungs aukning frá árinu þar á undan.  Til samanburðar má benda á að á árunum 2015-2019 var meðalfjöldi kvartana 408.

Kvörtunum tók að fjölga undir lok árs 2019 og hefur sú þróun haldist síðan. Ekki er fyllilega ljóst hvað skýrir þessa fjölgun en líklega kemur þar ýmislegt til. Sem dæmi má nefna að kvörtunum til umboðsmanns fjölgaði mikið í kjölfar bankahrunsins en það skýrðist þó ekki beint af málum því tengdu heldur líklega frekar af ástandinu sem skapaðist. Það sama kann að eiga við núna. Sú mikla fjölgun sem varð í fyrra stafaði ekki af málum sem tengjast COVID-19 en aftur á móti hefur kvörtunum og ábendingum því tengd fjölgað það sem af er þessu ári. Enn sem fyrr hafa þó ekki verið skilyrði til að ljúka mörgum slíkum málum með efnislegri umfjöllun.

   

  

Tengd frétt

Metfjöldi kvartana á einu ári