04. nóvember 2021

Skoða þarf aðstæður og lagalega umgjörð vistunar á öryggisdeild Litla-Hrauns

Lagaleg umgjörð vistunar á öryggisdeild Litla-Hrauns endurspeglar ekki að hún getur í reynd falið í sér einangrun fanga sem þar vistast. Dæmi er um að fangi hafi verið þar einn í þrjá mánuði sem er hámarkstími vistunar á deildinni í senn.

Vistun á öryggisdeild felur meðal annars í sér að samneyti við aðra fanga er takmarkað að verulegu eða öllu leyti. Á því tímabili sem umboðsmaður skoðaði voru fangar ýmist vistaðir þar einir eða ásamt einum eða tveimur öðrum föngum. Þetta kemur fram í skýrslu umboðsmanns í kjölfar OPCAT-eftirlitsheimsóknar. Umboðsmaður hefur áður bent á það að í lögum um fullnustu refsinga sé ekki að finna ákvæði um framkvæmd vistunar á öryggisdeild. Þessi atriði hafa nú að hluta verið útfærð í reglugerð. Umboðsmaður telur þó tilefni til að ítreka það við dómsmálaráðherra að kanna hvort ástæða sé til þess að vistun fanga á öryggisdeild verði búin ítarlegri umgjörð í lögum.

Vistun á öryggisdeild er íþyngjandi og felur í sér auknar takmarkanir á réttindum hlutaðeigandi fanga, svo sem til friðhelgi einkalífs. Þeim tilmælum er beint til Litla-Hrauns og Fangelsismálastofnunar að fara yfir reglur um vistun þar og breyta þeim eftir atvikum þannig að réttindi fanga séu ekki takmörkuð frekar en leiða megi af lögum og grundvallarreglum. Reglurnar þurfi að vera skýrar og fyrirsjáanlegar.

Bent er á að yfirbragð deildarinnar sé fábrotið, útisvæði óvistlegt, lítið við að vera, bæta þurfi aðbúnað í klefum með tilliti til öryggis og finna jafnvægi milli öryggis- og betrunarsjónarmiða. Huga þurfi að einu og öðru í tengslum nám, vinnu, útivist og líkamsrækt og leita leiða til að stemma stigu við neikvæðum afleiðingum félagslegrar einangrunar fanga sem vistaðir eru á deildinni og auka virkni þeirra eins og kostur er. Einnig þurfi að viðhalda þjálfun starfsfólks í valdbeitingu og fylgja eftir áformum um að þjálfa það í samskiptatækni.

Umboðsmaður óskar eftir viðbrögðum við tilmælum sínum og ábendingum fyrir 1. apríl 2022 frá bæði fangelsinu og öðrum stjórnvöldum sem þeim er beint til.

   

  

Skýrsla umboðsmanns um öryggisdeild Litla-Hrauns 

OPCAT-skýrslur umboðsmanns

     

Tengd frétt

OPCAT-eftirlit á öryggisdeild Litla-Hrauns