30. mars 2022

Málsmeðferð vegna starfsloka embættismanns ekki í samræmi við lög

Félagsmálaráðuneytið gætti ekki að sérstakri réttarstöðu embættismanns umfram aðra opinbera starfsmenn við starfslok nefndarmanns hjá úrskurðarnefnd velferðarmála. Ráðuneytið lagði málið hvorki í réttan lagalegan farveg né hlutaðist til um að afstýra ólögmætu ástandi þegar formaður nefndarinnar tók ákvörðun um starfslok nefndarmannsins. Þá dróst málsmeðferðin hjá ráðuneytinu úr hófi fram.

Nefndarmaðurinn kvartaði tvisvar til umboðsmanns yfir samskiptum og stjórnsýslu bæði nefndarinnar og ráðuneytisins. Eftir að umboðsmaður spurðist fyrir um málið tók ráðuneytið það til skoðunar sem lauk með því að viðkomandi var veitt lausn frá embætti degi áður en skipunartími rann út og var deilt um orsök, aðdraganda og undirbúning þess.

Umboðsmaður taldi sýnt að með því að ráðuneytið lagði málið í farveg almenns stjórnsýslumáls hefði nefndarmaðurinn ekki notið þess réttaröryggis sem lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna er ætlað að tryggja embættismönnum. Á grundvelli eftirlitsheimilda sinna hefði ráðherra enn fremur borið að gera viðeigandi ráðstafanir þegar ljóst var að formaður nefndarinnar hefði í reynd gengið inn á verksvið hans með því að leysa nefndarmanninn frá störfum. Með því að líta með öllu fram hjá þessari ólögmætu ákvörðun formannsins hefði synjun á launakröfu nefndarmannsins ekki byggst á fullnægjandi grundvelli. Þá fann umboðsmaður að því að ráðuneytið hefði ekki unnið í samræmi við málshraðareglu stjórnsýslulaga þar sem málið hefði tekið meira en ár í meðförum þess. Aukinheldur hefði tekið 10 mánuði að svara fyrirspurn umboðsmanns og þá eftir átta skriflegar og munnlegar ítrekanir sem síðan hefði leitt til óhóflegra tafa á meðferð málsins hjá honum.  

Var þeim tilmælum beint til ráðuneytisins að leita leiða til að rétta hlut viðkomandi, og gæta framvegis að þeim sjónarmiðum sem rakin voru í álitinu, en að öðru leyti yrði það að vera verkefni dómstóla að meta hugsanlegar launa- eða skaðabótakröfur.

 

 

Álit umboðsmanns í máli nr. 10929/2021